Íbúar við Auðbrekku segjast vera búnir að fá nóg af skammtímahugsun og ráðaleysi bæjaryfirvalda við að fegra og gera götuna mannlegri. Auðbrekkan er í hugum margra eins og „andlit Kópavogs út á við“ þar sem margir á leið í Garðabæ og Hafnarfjörð keyra framhjá henni og geta ekki annað en tekið eftir auglýsingaskiltum og hrörlegum byggingum á einum mest áberandi stað Kópavogs.
„Brandarinn um að Auðbrekka sé svo sannarlega auð brekka er fyrir löngu hættur að vera fyndinn,“ segir íbúi við götuna sem vill ekki koma fram undir nafni. „Konan mín grætur þegar við keyrum hingað heim þegar hún sér hvernig komið er fyrir húsunum hérna og umhverfinu. Allt í niðurníslu eins og í fátækrahverfi. Hér eru fullt af börnum en bílaumferðin er slík að litlu hefur mátt muna að stórslys hafi orðið. Oft verða árekstrar við austurenda Auðbrekkunnar, á horninu, þar sem gríðarlegt eignartjón hefur orðið. Menn keyra hérna eins og fávitar, ef við tölum bara íslensku,“ segir íbúinn og er ekkert að skafa utan af þvi.
-Hvað viljið þið íbúarnir gera?
„Það þarf að þrengja götuna – eða allavegana að banna innakstur í vestur. Enn ein hraðahindrunin myndi engu breyta. Það þarf að fegra þessa götu og gera umhverfið manneskjulegra. Það hafa verið haldnar hverfakynningar hérna og fullt af alls konar hugmyndum; allt frá hótelbyggð yfir í listagallerí og skapandi hverfi með blandaðri íbúðabyggð og atvinnusvæði. Fullt af flottum hugmyndum en engar efndir og ekkert framkvæmt. Húsið þar sem sýslumaður Kópavogs var áður til húsa hefur staðið autt í tíu ár, eða svo, og þannig eru mörg hús hérna í niðurníslu. Þetta er afar sorglegt ástand og fyrir löngu kominn tími á andlitslyftingu hérna.“
-En hér eru fullt af fyrirtækjum?
„Já, það er enginn á móti þeim. Ég veit samt að nokkur þeirra vilja koma sér burtu héðan. Þetta er ekki nógu aðlaðandi umhverfi til að örva viðskipti. Af hverju er Kópavogsbær ekki að búa til fjármuni úr þessu hverfi og umbreyta þessari götu í eitthvað sem trekkir að? Við erum hérna í miðju höfuðborgarsvæðisins þar sem stutt er í allar áttir og í alla þjónustu. Þetta ætti að vera dýrasta og flottasta gata höfuðborgarsvæðisins en í staðinn er hún sú ljótasta og mest fráhrindandi. Möguleikarnir hérna eru óþrjótandi en þá þarf að tala minna og fara að gera eitthvað,“ segir óþreyjufullur íbúi við Auðbrekku í samtali við Kópavogsfréttir í morgun.