Fuglar fá orðið í Náttúrufræðistofu


Laugardaginn 3. mars kl. 13 – 15 fer fram myndasögusmiðja með Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur í Náttúrufræðistofu. Fuglar fá orðið kallast smiðjan en þátttakendur teikna fugla Náttúrufræðistofu og nota ímyndunaraflið til að ljá þeim orð í munn eða nýta sér staðreyndir um fuglana til að bæta texta inn á myndirnar. Viðburðurinn er liður í Fjölskyldustundum Menningarhúsanna í Kópavogi sem fara fram á hverjum laugardegi.

Menning á miðvikudögum í Gerðarsafni og á Bókasafni Kópavogs
Miðvikudaginn 28. febrúar kl. 12:15 verður boðin hádegisleiðsögn um sýningu á verkum Barböru Árnason í Gerðarsafni og sýninguna Áhrifavaldar æskunnar – íslenskar barnabækur fyrr og nú á Bókasafni Kópavogs. Sýningarnar eru liður í viðburðaröðinni Barnabókin í 100 ár sem verður á aðalsafni Bókasafns Kópavogs í febrúar. Menning á miðvikudögum er á dagskrá í hádeginu í hverri viku og fer ýmist fram í Gerðarsafni, Salnum, Náttúrufræðistofu og Bókasafni Kópavogs, allir velkomnir og  aðgangur ókeypis.

 

Listamannaspjall Gerðarsafni
Sunnudaginn 4. mars kl. 15 fer fram listamannaspjall með Eirúnu Sigurðardóttur, Unu Margréti Árnadóttur og Erni Alexander Ámundasyni í Gerðarsafni. Listamennirnir munu ræða verk sín á sýningunni Líkamleiki og vinna þau öll með gjörninga í verkum sínum. Listamannaspjallið er hluti af viðburðadagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands 2018. Aðgangur á safnið gildir á viðburðinn.