Kópavogsheilsan: Fúsleiki til að hreyfa sig á réttum forsendum.

Sigga Karls, heilsuráðgjafi.
Sigga Karls, heilsuráðgjafi.

Ég hitti konu í sundi um daginn sem sagði mér að hún gæti orðið ekkert hreyft sig vegna gigtar og stirðleika. Hún væri orðin bakveik og alltof þung og einu skiptin sem henni liði vel væri í sundi. Hún hvíslaði því að mér að ef hún hefði hreyft sig sem ung kona, þá sæti hún ekki í heita pottinum nokkra klukkutíma á dag. Hún var um sextugt.

Hún kvaddi mig og fór upp úr. Ég fann til með henni þegar hún reyndi að koma sér inn í klefa og athafna sig þar.

Ég dæmi hana ekki. Hún dæmir sig örugglega verst sjálf. Ég er ekki hér á þessari jörð til að dæma aðra. En ég get lært af henni.

Mig langar til að geta reimað skóna mína sjálf ef Guð gefur mér sextíu ár. Mig langar líka að geta haldið á barnabörnunum mínum, ef ég mun eignast svoleiðis engla. 🙂

En þá þarf ég að hreyfa mig. En á réttum forsendum!

Þar komum við að fimmta boðorðinu mínu. Mér þykir vænt um það boðorð. Hreyfðu þig… EN á RÉTTUM forsendum!

Þegar ég var íturvaxin snót, (mér finnst það fallegra orð en feit) fyrir nokkrum árum síðan, hreyfði ég mig á röngum forsendum. Mig langaði til að verða mjó. Ég hreyfði mig á hnefanum, svona eins og alkahólistinn hættir að drekka á hnefanum. Hreyfði mig til þess eins að einn daginn myndi ég vakna voða mjó og komast í bikiníið sem ég sá auglýst í HogM bæklingnum. Ég keypti mér kort í ræktina og ætlaði svo sannarlega að ná tökum á þessu núna. Af fullum huga. Ég fór í nokkrar vikur, klukkutíma á dag, og ég segi það satt, mér fannst þetta leiðinlegasti klukkutími dagsins. Eina sem komst að, var það að ég yrði að hreyfa mig, annars yrði ég ekki mjó.

Í dag hreyfi ég mig af allt öðrum forsendum. Mig langar að geta skeint mig eftir klósettferðir á efri árunum. Eða klætt mig í sokka.

Ég á kort í ræktina. En ég brýt sjálfa mig ekki niður ef ég mæti ekki. Ég hef ekki mætt í allt sumar og það er bara allt í lagi. Ég finn að ef ég tek ekki göngutúra eða geri æfingarnar mínar ekki í nokkra daga, þá fer mér að líða illa í skrokknum. Og fæ innri þörf fyrir að hreyfa mig og liðka. Mér finnst gaman í göngutúrum. Mér finnst ágætt að synda. Mér finnst líka fínt að sprikla í ræktinni. Það var ekki einu sinni  þannig. Því ég hreyfði mig ekki á réttum forsendum.

Um leið og ég fer að pressa á sjálfa mig um að verða eins og Jennifer Aniston og brjóta mig niður fyrir að hreyfa mig ekki, þá finn ég að leiðinlegasti klukkutími dagsins er í ræktinni. Ég er löt að eðlisfari.

Fúsleikinn til að vilja hreyfa mig, verður að vera sprottin að innan. Ekki frá hnefanum. Eða frá tískublöðunum, netinu eða af því það hefur einhver annar misst 30 kg í Vikunni.

Heilbrigði finnst mér svo smart orð. Að vera heil á líkama og sál. Keyra sig ekki út eða hreyfa sig ekki neitt. Hinn gullni meðalvegurinn er svo mikilvægur. Njóta hreyfingarinnar og finna þá hreyfingu sem mér finnst skemmtileg. Hreyfa sig á réttum forsendum!

Mig langar í lokin að þakka innilega fyrir öll fallegu orðin og hrósin sem þið gefið mér og fyrirspurnirnar. Ég nýt þess virkilega að lesa pósta frá ykkur. Mér finnst þið dásamleg.

Enn og aftur óska ég ykkur að nýta daginn vel og hugsa um sjálfan ykkur fyrst og fremst. Vera góð við ykkur og skvettið smá húmor inn í daginn. Dagurinn kemur nefnilega ekki aftur.

Kærleikur til ykkar allra.

Ykkar Sigga

Heilbrigð heilsuráðgjöf Siggu er hér á Facebook.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar