Í sjónvarpinu í kvöld var norsk heimildarmynd um olíuleit og hernaðarstarfsemi. Það kveikti engan sérstakan áhuga hjá mér og úr því ég hafði ekki mikið annað að gera (því ég nennti ekki að vaska upp eða taka gúrkuna upp úr gólfinu) þá settist ég fyrir framan tölvuna.
Í stað þess að kíkja í uppbyggilegar bækur þá datt ég inn á heimasíðu þar sem sjá má heilan helling af myndum.
„Fyrir og Eftir“ myndum. Ég þarf ekki að segja meira. Kvöldið fór í það.
Mér finnst frábært að sjá fólk ná árangri. Ég fyllist stolti fyrir þeirra hönd og ánægju yfir því að þau hafa náð markmiðum sínum og breytt um lífstíl.
En mig langar svo að ræða í kjölfarið, reynslu mína og reynslu margra annarra (sem ég hef rekist á í gegnum tíðina) í tengslum við svona árangur og breytt viðhorf.
Við elskum öll að skoða svona myndir. Við höfum mörg skoðanir á því. Þessi er of feit, þessi er of grönn og þessi mætti bæta við sig vöðvum.
Við hrósum þeim í gríð og erg, enda eiga þau það fullkomlega skilið, þau hafa lagt mikið á sig og unnið algjörlega fyrir því að fara ekki í gamalt far og gefast upp.
En hvað gerist svo? Um það langar mig að ræða.
Í kollinum á okkur býr lítill púki. Hjá mér heitir púkinn Fröken Bree. Í höfuðið á Bree í aðþrengdum eiginkonum. Hún er fullkomin. Hún er með fullkomið hár, fullkomna húð og passar sig alltaf að vera fullkomin. Hún eldar fullkominn mat. Hún gagnrýnir aðra fyrir mistök og hún reynir stöðugt að leita að fullkomnun í öðrum. Og hún býr á vinstri öxlinni á mér.
Hún reynir að segja mér, nánast á hverjum degi, að ég sé ekki nógu góð. En ég kann að setja límband fyrir munninn á henni. Svo núna heyrst bara mmmm….
Þegar við náum gríðarlegum árangri og náum okkar markmiðum, þá reynist oft erfiðara að halda í þau. Sérstaklega ef við náum árangri á mjög skömmum tíma.
Hugsanir eins og:
„Ég sukkaði svo um helgina, ég ætla að svelta mig á mánudag og þriðjudag, svo ég fitni ekki“
„Vá, er ég búin að fitna?? Ég ætla ekki út í kvöld. Hvað segja stelpurnar?
„Ég get ekki látið sjá mig núna, pilsið er orðið þröngt“
„Ég kasta bara upp namminu sem ég var að borða.“
„Ef ég borða þessa köku, þá get ég farið á æfingu á eftir og brennt henni“
Þetta kallast að vera fangi hugsanna sinna. Þetta er alls ekki góður staður að vera á.
Sumir fara í sama farið aftur. Aðrir ekki.
Aðrir keyra sig áfram á hnefanum. Á þessum hugsunum. Refsa sjálfum sér fyrir að borða sykur. Brjóta sig niður í sykurmola. Einangra sig. Fara út í öfgakennd átröskunar mynstur.
Nú spyr ég: Í hverju felst eiginlega HEILBRIGDI? Hvað þýðir það að vera heilbrigður?
Fyrir mér er heilbrigði að vakna á morgnana ekki með þráhyggju yfir því hversu margar hitaeiningar ég ætla að borða þann dag.
Heilbrigði fyrir mér er að geta sofnað á kvöldin án þess að vera með samviskubit yfir því hvað ég setti ofan í mig.
Heilbrigði fyrir mér er að hreyfa mig af ánægju en ekki útaf kvöð.
Heilbrigði fyrir mér er að geta sinnt daglegum athöfnum án verkja.
Heilbrigði fyrir mér er að þurfa ekki að líta í spegill og skoða líkamann í hvert skipti sem ég fer á klósettið.
Heilbrigði fyrir mér er að geta farið á mannamót án þess að spá í hvort öðrum finnist ég líta vel út.
Hvað er pointið með þessum skrifum mínum?
Hlúum að okkur þó að kjörþyngd er náð. Hlúum að okkur alla daga. Fyrir og eftir myndir blekkja stundum. Hvað er að gerast í kollinum á ykkur eftir að markmiðum er náð? Hvort líður okkur betur á sálinni í yfir eða undir kjörþyngd? Fyrir eða eftir? Skoðum það hjá okkur.
Verður lífið fullkomið ef við náum því formi sem samfélagið okkar segir að sé heilbrigði?
Hlúum að sálinni. Hleypum ekki Fröken Bree að.
Styrkjum hjartað okkar með því að taka stigann en ekki lyftuna og með því að segja við sjálf okkur að við erum frábær eins og við erum.
Styrkjum hugann okkar með því að opna augun fyrir hugsanaskekkjum og niðurbroti.
Styrkjum líkamann okkar með hóflegri hreyfingu svo við getum notið þess að vera með barnabörnunum okkar eða farið til Kanaríeyja í ellinni. Fengið okkur jafnvel kokteil.
Að taka sjálfan sig í gegn er ekki endilega að geta póstað fyrir og eftir myndum. Að taka sjálfan sig í gegn er að vera sáttur við sjálfan sig, útlit og sál og notið dagsins án líkamlegra kvilla sem fylgja oft slæmum lífsvenjum.
Njótum lífstílsbreytinganna.
Hafið það gott. Hvort sem þið eruð yfir eða undir kjörþyngd. Þið eruð frábær eins og þið eruð!!
Ykkar Sigga