Aðalstjórn HK tók nýlega, tímabundið, við stjórn knattspyrnudeildar félagsins. Ástæðan var sögð vera sú að að stjórn knattspyrnudeildarinnar væri óstarfhæf. Nú hefur fyrri stjórn knattspyrnudeildar HK sent frá sér svohljóðandi yfirlýsingu.
Yfirlýsing frá fyrri stjórn knattspyrnudeildar HK.
Ákvörðun Aðalstjórnar HK.
Á fundi stjórnar Aðalstjórnar HK þann 20. maí sl. var tekin sú ákvörðun að Aðalstjórn HK tæki yfir stjórn knattspyrnudeildar tímabundið þar sem stjórn knattspyrnudeildar er óstarfhæf, að mati Aðalstjórnar, segir í tilkynningu á vef HK.
Við, undirrituð, sem réttkjörnir stjórnarmenn í stjórn knattspyrnudeildar getum ekki annað en komið okkar sjónarmiði á framfæri til félagsmanna þar sem ákvörðun sem þessi er verulega íþyngjandi og fordæmalaus þar sem ekki var um saknæmt athæfi af hálfu stjórnar knattspyrnudeildar að ræða. Þá er mjög vegið að heiðri okkar og æru.
Um knattspyrnudeild HK.
Í stjórn knattspyrnudeildar eru kjörnir fimm einstaklingar skv. lögum félagsins. Þá eiga sæti formaður barna- og unglingaráðs sem kjörinn er á sérstökum aðalfundi barna- og unglingaráðs skv. lögum félagsins og síðan formenn ráða s.s. meistarflokksáðs karla sem staðfestir eru á aðalfundi knattspyrnudeildar. Á síðasta aðalfundi stjórnar knattspyrnudeildar var samþykkt að veita stjórn heimild til að staðfesta formann m.fl.ráðs síðar. Þangað til sat fulltrúi m.fl.ráðs fundi stjórnar. Auk þess hefur fulltrúi HK/Víkings í kvennaknattspyrnu haft seturétt á fundum stjórnar. Það skal tekið fram HK/Víkingur er samstarfsverkefni tveggja félaga og er ekki um það getið sérstaklega í lögum HK.
Það er okkar skoðun að samstarf HK/Víkings í kvennafótbolta sé af hinu góða. Ráðið sjálfstætt og málefni þess s.s. samningar við leikmenn og þjálfara og fjárhagsáætlun hafa ekki verið borin undir stjórn knattspyrnudeildar HK. Málefni HK/Víkings hafa lítið sem ekkert verið rædd í stjórn knattspyrnudeildar HK a.m.k. síðustu misseri og fulltrúi þess mætt stopult á fundi stjórnarinnar.
Meistarflokksráð er einnig fjárhagslega sjálfstætt með rekstur meistaraflokks og 2.fl. karla. Rekstur ráðsins hefur gengið vel síðustu tvö ár, skuldir hafa verið greiddar niður og eru þær í dag mjög litlar. Mikið aðhald hefur verið í rekstrinum en á sama tíma lagður metnaður í að ná árangri í knattspyrnu. Tekjustofnar hafa verið af skornum skammti og hefur verið unnið að því að fjölga þeim, enda byggist reksturinn að miklu leiti á sjálfafla fé.
Eftir nokkurra ára niðursveiflu og tvö ár í annarri deild tókst meistaraflokki að vinna sér sæti í fyrstu deild að nýju síðastliðið haust með sigri í annarri deild.
Óstarfhæf stjórn knattspyrnudeildar?
Skömmu fyrir aðalfund knattspyrnudeildar ákvað Þórir Bergsson, formaður m.fl.ráðs karla sl. 2 ár, að gefa kost á sér til formennsku í stjórn knattspyrnudeildar og var síðar kjörinn formaður til tveggja ára. Þórir hefur starfað í yfir 30 ár málefnum knattspyrnunnar í ÍK/HK, lengst af sem þjálfari. Félagar í knattspyrnudeild HK hafa atkvæðisrétt á aðalfundi HK og er því um lýðræðislega kosningu að ræða.
Undirrituð vildu halda áfram því góða starfi sem náðst hafði í meistaraflokksráði sl. 2 ár og byggja upp góða og heildstæða knattspyrnudeild HK.
Rúmum mánuði eftir að ný stjórn tók til starfa eða þann 14. apríl, kom upp ágreiningur fundi stjórnar knattspyrnudeildar varðandi þjálfaramál. Ákvörðun var því tekin til atkvæðagreiðslu. Þann sama dag var svo fundur með stjórn knattspyrnudeildar og Aðalstjórn. Á þeim fundi mátti formaður knattspyrnudeildar sæta hörðum ásökunum formanns HK og fleiri innan Aðalstjórnar.
Nokkru síðar segja tveir af fimm kjörnum stjórnarmönnum knattspyrnudeildar sig úr stjórn, þeir sömu og höfðu greidd atkvæði gegn tillögunni. Auk þess tilkynnti fomaður barna- og unglingaráðs að hann myndi ekki sitja fleiri stjórnarfundi. Ekki kom fram í hvort viðkomandi sagði af sér sem formaður barna- og unglingaráðs. Ef svo er þarf barna- og unglingaráð að kjósa nýjan formann, enda gilda sér lög um barna- og unglingaráð.
Eftir í stjórn sátu því þrír af fimm stjórnarmönnum, lýðræðislega kjörnir á aðalfundi knattspyrnudeildar, tilbúnir til áframhaldandi starfa fyrir knattspyrnudeild.
Undirrituðum ásamt góðu fólki í m.fl.ráði og öðrum félagsmönnum tókst þrátt fyrir allt að halda starfi deildarinnar gangandi og m.a. að koma meistarflokki félagsins til keppni í 1.deild. Allir flokkar deildarinnar eru því starfandi með þálfurum og umgjörð.
Að beiðni Aðalstjórnar tóku þau er eftir sátu í stjórn, án formanns knattspyrnudeildar, að sér að reyna að sætta deiluaðila.
Eftir samræður milli aðila kom fram sú krafa að ef Þórir Bergsson, formaður knattspyrnudeildar, myndi víkja þá væri þau tilbúin að taka aftur sæti í stjórn knattspyrnudeildar, sem fyrr höfðu sagt af sér.
Þar sem Aðalstjórn hugnaðist ekki að Þórir sæti áfram sem formaður tók hún þá ákvörðun að víkja þeim sem eftir sátu í stjórn og höfðu líst yfir stuðningi við Þóri sem formann til að þóknast þeim aðilum sem sögðu sig úr stjórn eftir að hafa orðið undir í atkvæðagreiðlu og fleiri ávirðingum sem ekki eiga við rök að styðjast.
Stjórn knattspyrnudeildar ásamt fulltrúum ráða hafði verið boðuð til fundar fimmtudaginn 21. maí til að fara yfir stöðu mála og taka næsta skref. Jafnframt hafði formaður stjórnar knattpsyrnudeildar óskað eftir fundi með formanni HK til að ræða málefni knattpyrnudeildar fyrr sama dag og ákvörðun Aðalstjórnar var tekin og jafnframt óskað eftir fundi með stjórn knattspyrnudeildar og Aðalstjórn miðvikudaginn 28. maí. Þeirri beiðni var ekki svarað.
Nú hefur Aðalstjórn HK skipað formann knattspyrnudeildar HK og falið honum að mynda bráðabirgðastjórn. Skipaður formaður á sæti í Aðalstjórn HK. Skv. lögum félagsins má einstaklingur í Aðalstjórn ekki starfa í öðrum einingum innan HK. Í þessari bráðbirgðastjórn situr auk þess einstaklingur sem hafði sagt sig úr stjórn knattspyrnudeildar og orðið undir í umræddri atkvæðagreiðslu.
Okkar viðbrögð.
Við undirrituð erum undrandi á þessum vinnubrögðum Aðalstjórnar og þess fólks sem sagði sig úr stjórn. Leggja verður ríka skyldu á Aðalstjórn þegar hún tekur ákvörðun um að víkja frá lýðræðislega kjörnum stjórnarmönnum knattspyrnudeildar HK. Í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni vísar Aðalstjórn hvorki í lagareglur HK né til saknæmrar háttsemi stjórnarmanna. Meðalhófsreglan segir að alltaf verði að líta til aðgerða sem hafa sem minnst áhrif og rask. Í þessi tilfelli hefði Aðalstjórn verið í lófa lagt að manna stjórn og ráð til bráðabirgða í stað þeirra aðila sem sögðu sig frá störfum fyrir knattspyrnudeildina. Því verður ekki annað séð nema um algjöra geðþóttaákvörðun sé að ræða af hendi Aðalstjórnar.
Til að lágmarka þann skaða sem við teljum að Aðalstjórn hefur ollið höfum við undirrituð ákveðið að taka að okkur meistaraflokkráð karla ásamt því góða fólki sem þar var fyrir. Það öfluga starf sem þar er unnið verður að halda áfram. Við teljum það gríðarlega alvarlegt mál að slík geðþóttákvörðun sé tekin þegar knattspyrnutímabilið er rétt hafið.
Þar sem þessi ákvörðun Aðalstjórnar er gengur gegn tilgangi félagsins og þeim gildum sem við sem félag viljum standa fyrir tókum við þá ákvörðun að kæra hana til dómstóls ÍSÍ með það að markmiði að fá henni hnekkt. Hver niðurstaða dómstólsins verður mun koma í ljós. Við munum una henni.
Okkar vilji var og er að efla knattspyrnudeild HK sem hefur yfir að ráða einni bestu aðstöðu til knattspyrnuiðkunnar á Íslandi. Við munum vinna áfram að því.
Með knattspyrnukveðju til félagsmanna í knattspyrnudeild HK.
Þórir Bergsson
Sigvaldi Einarsson
Kristín Guðmundsdóttir