Fyrrverandi flokkstjóri í Vinnuskóla Kópavogs starfar sem tenórsöngvari í Berlín

Að stýra unglingum í Vinnuskóla Kópavogs og starfa í bæjarvinnunni í nokkur sumur er dýrmæt reynsla. Ekki síst fyrir Benedikt Kristjánsson sem starfar sem tenórsöngvari í Berlín. Þessa dagana syngur hann aðalhlutverk í tónlist eftir Haendel. Hljómsveitin í uppfærslunni hefur æfingaaðstöðu í skóla sem er í hverfi sem alræmt er fyrir vandræðaunglinga. Á hverju ári er nemendum úr hverfinu boðið að taka þátt með hljómsveitinni sem statistar, leikarar, söngvarar eða hljóðfæraleikarar. Hljómsveitin efnir til góðgerðartónleika í janúar, ár hvert, til að styrkja við efnaminni fjölskyldur í nærhverfinu. Krakkarnir eru oft erfiðir og ódælir en Benedikt býr vel að reynslu sinni í Vinnuskóla Kópavogs.

Benedikt Kristjánsson starfar sem tenórsöngvari í Berlín. Mynd: Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari í Berlín. Mynd: Andreas Labes.
Benedikt Kristjánsson starfar sem tenórsöngvari í Berlín. Mynd: Andreas Labes.

Benedikt er fæddur árið 1987 og hóf söngnám 16 ára gamall. Hann lauk framhaldsprófi í söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 en ári síðar fékk hann inngöngu í Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín. Hann hlaut fyrstu verðlaun í alþjóðlegri Bach söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Árið 2012 var hann valinn „Bjartasta vonin“ í sígildri og samtímatónlist og fékk íslensku tónlistarverðlaunin. Hann hefur víða komið fram í Evrópu sem guðspjallamaður í passíum eftir Bach og öðrum óratoríum.

Ópera í gettói

„Ég tók þátt í óperuverkefni, sem er samstarfsverkefni Fílharmoníusveitar Bremenborgar og grunnskóla í sömu borg. Hljómsveitin hefur æfingaaðstöðu í grunnskólanum,“ segir Benedikt þegar við náðum tali af honum. „Fyrir sex árum var ákveðið að hefja þetta samstarfsverkefni sem hefur síðan verið árlegur viðburður. Í hvert skipti er sett upp ný ópera. Söguþráðurinn er alltaf nýr en tónlistin er ekki alltaf frumflutt. Núna í ár varð tónlist Händels fyrir valinu og nýir textar samdir við lögin til að þjóna söguþræðinum.“

Benedikt segir að ávallt sé vandað til valsins á þeirri sögu sem flutt er. Sérlega hafi það heppnast vel í ár. „Hverfið í Bremen þar sem skólinn er, hefur því miður þróast út í að verða eins konar gettó. Þarna búa margir hópar af ýmsum þjóðernum og nú einnig margir flóttamenn. Það var því afar viðeigandi að velja söguna „Avicenna,“ um þekktan hugsuð frá Íran.“

Erfið vinna með unglingum

Benedikt segir samstarfið stundum hafi reynt mikið á og alls ekki laust við áföll. „Ég söng aðalhlutverkið í sýningunni og varði þess vegna meiri tíma unglingunum en aðrir söngvarar. Auðvitað var það leikstjórinn sem sá mest um að stjórna æfingum en ég fann að krakkarnir litu meira til mín sem fagmanns í leik og söng. Það er reyndar dálítið skondið fyrir þær sakir að ég er sjálfur nýútskrifaður úr söngnámi. En vinnan með unglingunum var vissulega oft strembin, einkum við upphaf æfinga. Áhugi þeirra var oft lítill og mikið agaleysi ríkti á æfingum. Allar hópsenur einkenndust af ringulreið og áhugaleysi. Þær senur þar sem ég var einn með einum ungling voru þó alltaf mjög góðar. Ég greindi það fljótlega að þegar hópur unglinganna kom saman náðu þeir óþekku alltaf að ráða,“ segir Benedikt. Það birti sem betur fer fljótt eða um leið og krakkarnir fóru að bæta sig. „Það var í raun ótrúlegt hvað krakkarnir bættu sig mikið á skömmum tíma,“ segir Benedikt. „Um leið og æfingarnar hófust, hljómsveitin var á staðnum og allir komnir í búning, þá breyttist stemningin og allt small saman. Krakkarnir tóku hlutverkunum alvarlega og ef einhver fór að fíflast þá var sá hinn sami sussaður niður af hópnum. Á frumsýningunni gerðust svo þau undur og stórmerki að í atriðinu sem krakkarnir 60 áttu að klappa í takt í 15 sekúndur, þá tókst þeim það! Ég hafði fyrir löngu gefið upp vonina og var satt að segja hættur að pæla í þessu, en það tókst vel. Á frumsýningunni komu þau mér það skemmtilega á óvart að ég hreinlega datt niður af stólnum sem ég stóð á. Loksins náðu þau að einbeita sér að einu og sama atriðinu, öll á sama tíma. Það var alveg frábært.“

Reynslan sem flokkstjóri nýttist vel

„Þegar ég var flokkstjóri í Vinnuskóla Kópavogs þá einsetti ég mér að kynnast hverjum og einum ungling persónulega og reyndi ávallt að hafa gaman í vinnunni. Mér fannst líka mikilvægt að verðlauna fyrir það sem vel var gert. Þetta skilaði sér í 100% vinnu og allir unnu jafn mikið. Verðlaunin voru frisbí eða fótboltaleikur, þar sem allir voru með. Hins vegar í Bremen, vann ég fyrst með einu og einu ungmenni í einu en síðar með hópinn. Það var mitt verkefni, að vera vel undirbúinn og sýna áhuga og festu þó svo nemandinn hefði hvorki reynslu af söng né leik. Síðan hrósaði ég sparlega, einungis þegar vel var gert og umgmennið átti það skilið. Það skiptir máli að hrósið sé ekta,“ segir Benedikt og brosir.  „Með hópnum fannst mér mikilvægt að sýna hvað ég tæki verkefninu alvarlega og væri vel undirbúinn. Í raun var nauðsynlegt að halda fjarlægð, að vera örlítið fjarlægur þeim. Þá fóru þau smám saman að taka hlutunum alvarlegar og sýndu verkefninu virðingu. Þetta var gríðarlega gefandi verkefni og ég tala nú ekki um þegar margir unglingar komu til mín eftir síðstu sýningu og þökkuðu innilega fyrir sig. Svoleiðis er ótrúlega gefandi.“

Mynd:. Joerg Sarbach
Mynd:. Joerg Sarbach
Mynd:. Joerg Sarbach.
Mynd:. Joerg Sarbach.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn