Hamraborgarhátíðin ætlar að draga dilk á eftir sér því nú er deilt um afskipti stjórnmálamanna af hátíðinni.
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar í Kópavogi og fyrrverandi formaður bæjarráðs, lagði á dögunum fram fyrirspurn um hvar í stjórnkerfi bæjarins hafi verið tekin sú ákvörðun að ráða núverandi formann bæjarráðs, Rannveigu Ásgeirsdóttur úr Y-lista, sem verkefnastýru Hamraborgarhátíðar. Rannveig segir í svari sínu til bæjarráðs í dag að titillinn verkefnastýra hafi orðið til hjá fréttamanni dagblaðs sem fjallaði um hátíðina. Í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2013 var ekki gert ráð fyrir fjármagni til Hamraborgarhátíðar og þar með ekki grundvöllur til að ráða verkefnastjóra. Í skriflegu svari sínu til bæjarráðs segir Rannveig meðal annars:
„Þegar forsvarsmönnum Miðbæjarsamtakanna í Hamraborg var gerð grein fyrir þessu lýstu þeir miklum vonbrigðum og fram kom sú ósk að engu að síður yrði reynt að halda hátíðina þetta árið. Undirrituð bauðst þá til að vinna að verkefninu í sjálfboðavinnu, enda gert svo á öllum hátíðunum frá 2010.“
Guðríður spyr í fyrirspurn sinni hvert var ábyrgðarsvið verkefnastýru og hvaða starfsmenn unnu undir hennar stjórn. Rannveig segir í svari sínu hafa séð um að taka á móti tölvupóstum bæjarbúa og gesta sem komu á hátíðina með skottmarkað – senda þeim leiðbeiningar og telja út bílastæði og leikja- og sýningarsvæði vegna atriða sem voru á þessum degi svo allt færi rétt fram. Ennfremur að halda uppi hvatningu á facebook-síðu hátíðarinnar, hirða rusl og annast frágang eftir hátíðina, hið síðastnefnda gert á öllum hátíðunum frá árinu 2010. Engir starfsmenn hafi starfað undir hennar stjórn og engar nefndir hafi komið að skipulagningu Hamraborgarhátíðar enda „..engin nefnd hjá bænum sem hefur í sinni lögsögu Miðbæjarsamtökin sem eru sjálfstæð samtök verslunar-og þjónustu í Hamraborg og ákváðu sjálf að skipuleggja þennan dag svo af hátíð geti orðið,“ segir Rannveig í svari til Bæjarráðs í dag.
Guðríður óskaði eftir sundurliðuðu yfirliti yfir kostnað vegna Hamraborgarhátíðar og nafnalista þeirra einstaklinga sem unnu við hátíðina en Rannveig vísar á Upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar sem hafi séð um auglýsingastyrki við hátíðina 2013. „Annar kostnaður sem til féll var greiddur af Miðbæjarsamtökunum. Að sjálfsögðu er enginn nafnalisti til yfir þá sem unnu að hátíðinni enda er um sjálfboðavinnu að ræða, fyrst og fremst þeirra sem eiga og reka fyrirtæki í Hamraborg sem og almennra bæjarbúa,“ segir Rannveig sem bætti við þessari bókun á fundi Bæjarráðs í dag:
„Á bæjarstjórnarfundi 10 september 2013, ræddi bæjarfulltrúi Guðríður Arnardóttir fyrirspurn sína sem beint var til undirritaðrar á bæjarráðsfundi í liðinni viku varðandi Hamraborgarhátíð og sem hefur nú verið svarað. Í ræðu Guðríðar á umræddum fundi kemur fram að hún hafi vitneskju frá ónefndum starfsmönnum bæjarins þess efnis að undirrituð hafi farið út fyrir valdsvið sitt sem kjörinn fulltrúi og skipað starfsmönnum fyrir í aðdraganda Hamraborgarhátíðar. Bæjarfulltrúinn Guðríður lýsir fjálglega ýmsum aðstæðum, jafnvel klæðaburði s.s. sjálfboðaliða á hátíðinni, án þess að hafa sjálf verið viðstödd, en telur ástæðu til þess að taka málið upp með öflugum myndlýsingum en ekki síst gefur hún í skyn með afgerandi hætti að undirrituð hafi brotið samskiptareglur Kópavogsbæjar hvað varðar samskipti kjörinna fulltrúa og starfsmanna. Þessu heldur hún ennfremur til streitu í frétt í Fréttablaðinu 11.september 2013 sama efnis . Augljóst er að bæjarfulltrúi er í pólitískum skylmingum við undirritaða og dregur inn í það starfsmenn Kópavogsbæjar sem er til vansa. Til þess að tryggja gegnsæja, sanngjarna og áreiðanlega meðferð málsins biður formaður bæjarráðs sviðsstjóra stjórnsýslusviðs að fara yfir málið og skila greinargerð.“