Systkinin Petrína Rós, Jóhannes og Pétur Karlsbörn færðu Kópavogsbæ bekk til minningar um foreldra sína, þau Ólöfu P. Hraunfjörð, bókavörð, og Karl Árnason, forstjóra Strætisvagna Kópavogs, á afmælisdegi bæjarins 11. maí. Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar, tók við bekknum fyrir hönd bæjarins. Bekkurinn er á göngustígnum við Kópavogstún. Á honum er áletrun til minningar um Ólöfu og Karl.
Karl og Ólöf giftu sig 14. maí 1955, árið sem Kópavogur fékk kaupstaðarréttindi, og stofnuðu þau heimili þar. Þar fæddist þeim fyrsta barnið síðar sama ár. Þau hjónin bjuggu í Kópavogi alla sína ævi, en Ólöf lést 6. desember 2011 og Karl 28. desember 2012.
Karl hóf störf hjá Kópavogsbæ árið 1961. Í desember sama ár bað Hulda Jakobsdóttir bæjarstjóri hann um að sinna verkstjórn og sjá um rekstur Áhaldahúss Kópavogs. Karl varð forstjóri Strætisvagna Kópavogs árið 1972 og gegndi því starfi þar til þeir voru lagðir niður árið 1992. Hann var forstöðumaður Vélamiðstöðvar Kópavogs þar til hann lét af störfum árið 2002.
Þau hjónin létu félagsmál til sín taka, Ólöf var m.a. varabæjarfulltrúi fyrir Alþýðubandalagið og í kvenfélaginu, og Karl var í hafnarstjórn, atvinnueflingarnefnd og bæjarmálaráði.
Systkinin vonast til að sem flestir njóti útiveru í Kópavogi og tylli sér á bekkinn.
Margrét Björnsdóttir forseti bæjarstjórnar tók við bekknum fyrir hönd bæjarins og var bekkurinn afhentur að viðstöddum fjölskyldu, vinum, vinnufélögum og aðilum úr umhverfis- og samgöngunefnd bæjarins, ásamt Katrínu Júlíusdóttur, starfandi fjármálaráðherra.