Gildi tómstunda


 

Hildur Lovísa Rúnarsdóttir Nemi í tómstunda - og félagsmálafræði

Hildur Lovísa Rúnarsdóttir
Nemi í tómstunda – og félagsmálafræði

Tómstundir hafa mikið vægi lífi unglinga en tómstundir eru skilgreindar sem það sem fólk gerir í frítíma sínum. Margt telst til tómstundastarfs. Meðal annars er hægt að nefna íþróttastarf, æskulýðsstarf og annað sem fólk hefur áhuga á að gera á sínum forsendum. Tómstundir geta bæði verið skipulagðar og óskipulagðar. Skipulagðar tómstundir eru til dæmis, íþróttastarf, listnám og tónlistarnám. Óskipulagðar tómstundir eru hins vegar sá tími sem maður eyðir með vinum, til dæmis að horfa á sjónvarpið í takmarkaðan tíma eða að fara í sund.

Tómstundastarf snýst um andlega vellíðan og að vera þátttakandi í skipulögðu tómstundastarfi snýst um félagslega virkni. Það er fjölbreytt, margbreytilegt og mismunandi allt eftir því hvernig tómstundastarfið er.

Tómstundir hafa jákvæð áhrif á líf unglinga og hafa jafnframt mikið forvarnargildi. Tómstundir geta þannig komið í veg fyrir að unglingar rati á óheppilega braut í lífinu. Unglingar eru áhrifagjarnir á þessum árum og sjálfsmynd þeirra mótast af félags – og tómstundastarfi, skóla og fjölskyldutengslum.

Unglingur sem stundar tómstundastarf eftir skóla er félagslega virkur og veit hvað hann hefur fyrir stafni í lok skóladagsins. Félagsleg virkni fer til dæmis fram í tónlistarnámi eða á íþróttaæfingu. Hins vegar er líklegt að unglingur sem er ekki er í tómstundarstarfi fari heim eftir skóla og eyði óþarflega miklum tíma við sjónvarpgláp og tölvunotkun.

Tómstunda- og íþróttastarf hefur áhrif á einstaklinginn sjálfan. Hann lærir að fara eftir reglum, að vinna með öðrum og sjá sig sem hluta af hópi. Íþróttaiðkun stuðlar að bættri heilsu unglingsins. Með þátttöku í íþróttastarfi lærir unglingur einnig að takast á mótlæti þegar árangurinn er ekki eins og að var stefnt.

Að taka þátt í tómstundastarfi hefur mikil áhrif á daglegt líf og félagslega virkni unglings. Tómstundastarf er jákvæð reynsla sem hefur jákvæð áhrif á einstaklinginn og er reynsla sem nýtist í nútíð og framtíð.

Hildur Lovísa Rúnarsdóttir
Nemi í tómstunda – og félagsmálafræði.