Gísli Tryggvason, lögmaður og fyrrverandi talsmaður neytenda, sem skipað hefur forystusveit Dögunar, hefur ákveðið að hætta í framlínu stjórnmála. Þetta má lesa í nýlegri Twitter-færslu Gísla.
Nafn Gísla var nefnt sem leiðtogaefni Dögunar í Kópavogi en flokkurinn undirbýr nú framboð til sveitarstjórnarkosninga víða um land.
Fyrir nokkru sagði Gísli sig úr nefnd sem undirbýr sveitarstjórnarframboð Dögunar. Aðspurður segist Gísli nú ætla að einbeita sér að lögmennsku og uppbyggingu á rekstri lögmannsstofunnar VestNord lögmanna sem hann stofnaði í upphafi árs ásamt félaga sínum, Eyjólfi Ármannssyni hdl.