Óp-hópurinn og Vonarstrætisleikhús þeirra Vigdísar Finnbogadóttur og Sveins Einarssonar efndu til mikillar söngveislu í Salnum í Kópavogi föstudaginn 8. nóvember síðastliðinn í tilefni af því að í ár eru liðin 200 ár frá fæðingu eins ástsælasta tónskálds allra tíma, Giuseppe Verdis. Sýningin gekk glimrandi vel og verður hún því endursýnd þann 24. janúar kl. 20:00 í Salnum.
Fluttar verða aríur, dúettar, terzettar og kvartettar úr óperum Verdis m.a. úr La traviata, Simon Boccanegra, Kvöldi á Sikiley, Il trovatore, Valdi örlaganna, Don Carlos, Aidu, Othello og Grímudansleiknum, Nabucco og að auki atriði úr Sálumessu tónskáldsins.
Söngvarar: Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Egill Árni Pálsson, Erla Björg Káradóttir, Hörn Hrafnsdóttir, Jóhanna Héðinsdóttir, Rósalind Gísladóttir og Valdimar Hilmarsson.
Píanó: Antonia Hevesi.
Verdi: Randver Þorláksson.
Vonarstrætisleikhúsið hefur starfað í rúm fjögur ár og meðal markmiða þess er samstarf við ungt listafólk. Nýlega stóð leikhúsið þannig fyrir frásagnarleikhúsi, þar sem tveir ungir höfundar fluttu eigin texta.
leikstjóri í Salnum þetta kvöld verður Sveinn Einarsson, en Páll Ragnarsson, fyrrum ljósameistari Þjóðleikhússins og Íslensku óperunnar hannar lýsinguna.
Giuseppe Verdi hefur verið boðið í þessa afmælisveislu og stefnir allt í að hann þekkist það boð. Mun Randver Þorláksson taka á móti honum fyrir hönd hópsins. Þá er og von á óvæntum gestasöngvara.