Það er frábært þegar skólar fara þá leið að auka fjölbreytni í kennslu og hanna námið eftir ólíkum námstílum nemenda. Við vitum öll að það hentar okkur mis vel að læra stærðfræði, sögu, smíði eða rafvirkjun. Ég hef verið talsmaður þess að skólar, kennarar og aðrir sem koma að skólamálum reyni að túlka og lesa nýja aðalnámskrá þannig að hún henti sem flestum börnum. Að boðið sé upp á fjölbreytt nám sem hentar nemendum á ólíku getustigi og með ólík áhugamál. Að þróað sé nám sem er bæði fjölbreytt í eðli sínu en líka nám sem hjálpar börnum og ungmennum að auka daglega færni sína. Dæmi um það væri að kenna nemendum að negla nagla í vegg, setja skrúfbitahaldara í rafmagnsborvél og að vinna önnur lítilsháttar verk heima fyrir og annars staðar.
Áður fyrr fóru nemendur í sumarvinnu hjá iðnaðarmönnum og lærðu mörg handtök, sem þeir höfðu not fyrir það sem eftir var af lífinu. Nú á árinu 2014 kunna margir nemendur ekki á hallamál eða borvél og eru óöruggir að beita málbandi. Við vitum að nemendur sem hafa engan grunn í almennri iðn eða handavinnu eiga erfiðara með að fóta sig í iðnnámi, ná ekki sama hraða og upplifa sig ekki sterka á svellinu. Það þýðir að valmöguleikum þeirra fækkar, brottfallshætta eykst og við fáum ekki þá góðu handverksmenn sem pottþétt gætu orðið til. Ef námið er fjölbreytt aukum við sjálfbjargarhæfni barna, nýtum betur styrkleika þeirra og aukum líka fjölbreytnina. Margir sem eru færir í bóknáminu hafa líka gaman og gott af því að kynnast fleiri verkefnum, en aðal málið er að hver einstaklingur finni nám við hæfi og þrói áhuga sinn á eigin forsendum.
-Sigursteinn Óskarsson er rafvirkjameistari og kennari og skipar 13. sæti á lista Bjartrar framtíðar