Á hverju ári síðan 2006 hefur KALAK, vinafélag Grænlands og Íslands, í samvinnu við Kópavogsbæ, Hrókinn og fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga, boðið 11 ára börnum af austurströnd Grænlands til tveggja vikna dvalar á Íslandi. Aðaltilgangur ferðarinnar er að kenna börnunum sund og kynna þau fyrir jafnöldrum sínum og íslensku samfélagi.
Í ár komu þau föstudaginn 6. september og fara til baka núna um helgina. Hópurinn samanstendur af 16 börnum og 5 kennurum.
Sundkennarar eru þau Guðrún H. Eiríksdóttir og Haraldur Erlendsson en þau hafa annast sundkennsluna af mikilli fagmennsku undanfarin ár. Börnin byrja daginn á sundkennslu í Salalaug og taka svo þátt í skólastarfi með jafnöldrum sínum í Vatnsendaskóla. Eftir hádegi fara þau svo aftur í sund.
Þrátt fyrir tungumálaörðugleika hefur allt samstarf gengið ljómandi vel. Margir leggja sitt af mörkum við að gera dvöl barnanna sem ánægjulegasta. Þau heimsækja Húsdýragarðinn og Skautahöllina, versla smáveigis í Kringlunni, fara í ferð um Gullna Hringinn og á hestbak. Heimsókn á Bessastaði er ein af stóru stundunum fyrir börnin og kennara þeirra.