Eitt sérkennilegasta útilistaverk bæjarins er tvímælalaust grindverkið að Digranesheiði 2. Grindverkið minnir helst á ryðgaðan ost.
„Okkur vantaði grindverk hérna til að búa til skjól en ég gat ekki hugsað mér að loka fyrir útsýnið hérna,“ segir Áslaug Edda Guðnadóttir, sem hannaði þetta nýstárlega grindverk. „Ég fékk þá hugmynd að setja stór göt í járnbútana sem hann Stefán Sveinsson, þúsundþjalasmiður, aðstoðaði mig með.“
-Og þú hannaðir þetta útlit sjálf?
„Já, algjörlega! Ég er mjög fylgjandi því að fólk eigi að reyna að skapa sjálft sína list. Sjálf hef ég fengist við leirlist og fleira því tengt í gegnum tíðina. Ég notaði bara matardisk og stórar skálar við að gera þessar holur og útkoman er grindverk sem er eins og ostur,“ segir Áslaug kankvís.
-Þetta vekur athygli vegfarenda?
„Já, ég efast um að fólk hafi séð eitthvað svipað annars staðar. Þetta vekur mikla athygli og fólk hefur oft komið og spurt mig hvaða listamaður sé hér að verki,“ segir Áslaug Edda Guðnadóttir, íbúi að Digranesheiði 2 og útilistamaður.