Gunnar Ingi Birgisson: „Framkoman við Guðrúnu Pálsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra, er Kópavogsbúum til háborinnar skammar.“

Segir Ómar Stefánsson hafa neitað að standa við samning við Guðrúnu vegna gatnagerðargjalda hans.

 

Í viðtali við Kópavogsblaðið í síðustu viku gerði Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, upp stjórnmalaferilinn, en hann hefur sem kunnugt er ákveðið að taka sér hlé frá þátttöku í stjórnmálum. Í viðtalinu nefndi Ómar að kastast hefði í kekki milli hans og Gunnars Inga Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra, svo að til átaka hafi komið, einkum þegar rætt var um gerð ársskýrslu bæjarins.

„Ég stakk upp á að við buðum út verkefnið. Þá varð Gunnar svo reiður að hann strunsaði út úr fundarherberginu með þeim orðum að ég væri á móti sér og sinni fjölskyldu. Ég elti hann og svaraði því fullum hálsi en þá sló hann mig fast í bringuna „að sjómannasið,“ eins og sagt er. Mér krossbrá og snöggreiddist við þetta og elti hann að skrifstofu hans en þá skellti hann hurðinni beint á nefið á mér. Það sauð á mér þarna og munaði litlu að ég rifi upp hurðina inn á skrifstofu hans og færi bara almennilega í kallinn,“ sagði Ómar.

Gunnar Ingi Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.
Gunnar Ingi Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag rekur Gunnar forsöguna að því þegar þáverandi meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Næstbesta flokksins og Y-lista, sprakk vegna þess sem hann segir hafa verið kröfu Samfylkingar og VG um að segja Guðrúnu Pálsdóttur, þáveranda bæjarstjóra, upp störfum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi gagnrýnt þetta enda hafi Guðrún verið fórnarlamb í pólitískri atburðarrás.

Síðan segir Gunnar:

„Við tók nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-lista. Þessi meirihluti gekk frá starfslokasamningi við Guðrúnu þar sem var lögð áhersla á að virða samning fyrri meirihluta við hana þar á meðal að hún fengi sitt gamla starf sviðstjóra menningarmála aftur eða sambærilega sviðsstjórastöðu þegar hún kæmi aftur til starfa. Allt gekk vel þar til Guðrún átti að koma til starfa og gera þurfti breytingar á skipuriti bæjarins vegna samningsins. Þá bar svo við að bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins neitaði að standa við samninginn og málið komið í uppnám. Hvað skyldi nú hafa valdið þessari afstöðu Ómars? Á tíma Guðrúnar sem bæjarstjóra stækkaði Ómar íbúðarhúsnæði sitt og þurfti að greiða bænum gatnagerðargjöld. Hann fór fram á að greiða þau með jöfnum afborgunum. Þessu hafnaði Guðrún eðlilega, gat ekki annað, enda hefði hún með slíkum gjörningi mismunað öðrum byggjendum sem flestir gætu sjálfsagt notað tilslakanir á greiðslum. Þetta fór illa í bæjarfulltrúann og nú var komið að skuldadögum,“ segir Gunnar Ingi Birgisson.

Gunnar rekur síðan í grein Morgunblaðsins að Guðrún hafi verið sett á ís á grundvelli tillagna um nýtt skipurit þar sem hún hafi verið sett í sviðstjórastarf án sviðs. Örfáum mánuðum seinna hafi Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, einhliða lagt til að starf Guðrúnar yrði lagt niður.

Ekki átta ég mig á hvað bæjarstjóri hefur á móti Guðrúnu sem hefur að baki 25 ára farsælan starfsferil í bænum ,kannski áhrif meðreiðarsveina. Formaður bæjarráðs, Rannveig Ásgeirsdóttir, Y-lista, studdi þessa aftöku Guðrúnar. Fyrir síðustu kosningar predikaði hún heiðarleika, mannúð og gegnsæi í stjórnmálum sem hún hefur greinilega gleymt nú. Þegar aftakan hafði verið ákveðin var Guðrúnu birt uppsögnin af stefnuvotti í leigubíl. Sviðstjóri stjórnsýslusviðs sem hefur numið guðfræði og stjórnsýslufræði kvittaði undir aftökubréfið í fjarveru bæjarstjóra,“ segir Gunnar Ingi Birgisson og bætir því við að Guðrún Pásdóttir sé leikskoppur örlaganna í þessari atburðarrás og að þessi framkoma sé Kópavogsbúum til háborinnar skammar.  

Umræðan

Fleiri fréttir

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs

Össur Geirsson er heiðurslistamaður Kópavogs 2024 og var valið kynnt við hátíðlega viðhöfn í Tónhæð, húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs.  Elísabet Berglind Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs og formaður lista- og menningarráðs, afhenti

Brugðist við vopnaburði barna og ungmenna

Flýta á innleiðingu forvarnarverkefnis í KópavogiTala opinskátt um ofbeldi í öllum grunnskólum, frístund og félagsmiðstöðvum barna Menntaráð Kópavogs fjallaði um viðbrögð og forvarnir vegna ofbeldis og vopnaburðar barna og ungmenna

Heitar umræður um merki Pírata

Á aðalfundi Pírata í Kópavogi um liðna helgi var ný stjórn félagsins kjörin. Fundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og Pírata í Suðvesturkjördæmi líkt og í

Gatnaframkvæmdir hafnar í Vatnsendahvarfi

Framkvæmdir við jarðvinnu og lagnir í Vatnsendahvarfi eru hafnar. Til að halda upp á áfangann tók bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir fyrstu skóflustungu að götunni Hæðarhvarfi. Árni Geir Eyþórsson, framkvæmdastjóri Jarðvals

Gamlar fréttir úr sarpinum

jt
Kóparokk
soffiakarlsdottir_2-002
KAI_IM_Barna_2015
Screenshot-2024-03-21-at-16.32.09
Web
ormadagar32014-1
Gladheimar
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, skipar 1. sæti á lista Bjartrar framtíðar í suðvesturkjördæmi.