Bæjarráð Kópavogs samþykkti einróma tillögu í dag að framlengja samning Kópavogsbæjar við Gym heilsu ehf um rekstur líkamsræktar í sundlaugum Kópavogs. Reksturinn var boðinn út eftir að Laugar ehf kvartaði til Samkeppniseftirlitsins um að Kópavogsbær væri að skekkja samkeppnisstöðu á markaði með því að niðurgreiða þessa starfsemi. World Class bauð í reksturinn ásamt Gym heilsu og hermdu fyrstu fregnir að tilboð World Class til bæjarins hefði verið hagstæðara. Undirskriftalistar fóru fram í sundlaugum bæjarins gegn því að reksturinn yrði færður til World Class. Tilboðum Gym heilsu og World Class var hafnað vegna formgalla í vor og kærði World Class þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar útboðsmála. Þeirri kæru var vísað frá í síðustu viku, samkvæmt heimildum Kópavogsblaðsins, og það mun hafa rutt brautina fyrir einróma atkvæðum bæjarfulltrúanna í bæjarráði að ganga til samninga við Gym heilsu.
Samningurinn gildir yfir tímabilið frá 1. mars, 2014, til 1. júní, 2016.
Kjartan Már Hallkelsson hjá Gym heilsu fagnar þessari niðurstöðu og segir að árskort verði áfram í boði á 35.990 krónur.
Bæjarbúar eru búnir að berjast í þessu með okkur og við munum halda áfram að þjóna bæjarbúum eins og við höfum gert undanfarin 17 ár.“
Ekki náðist í Björn Leifsson hjá World Class við vinnslu þessarar fréttar.