„Þegar ég horfi til næstu daga sýnist mér liggja fyrir að hann verði stífur af austri, jafnvel að það geti slegið í stormhviður nokkuð reglulega,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur eða Siggi stormur eins og hann er oftast nefndur. Kópavogsfréttir fengu Storminn til að lesa í hið pólitíska veður í bænum.
„Það lofar aldrei góðu þegar takast á stífir strengir úr vestri á móti hvössum austrænum vindi og því rétt að fara með gát þegar menn fara milli herbergja með viðkvæm trúnaðargögn sem geta hreinlega tekist á loft og fokið í flest skjól,“ segir Siggi. Hann bætir við að vestlægir háloftavindar sem oft eru kallaðir „gott að búa í Kópavogi“ í þessum fræðum, séu nokkuð sterkir um þessar mundir sem hæglega geti myndað öfluga hvirfla eða stróka og því sú staða uppi að menn viti hreinlega ekki úr hvaða átt vindurinn blæs.
„Ekki er að sjá að lægi að neinu gagni, hvorki á neðri né hærri loftlögum fyrr en um miðja næstu viku eftir svokölluð Ármannsský (Cumulos Nimbus) hafa undið úr sér gríðarmikilli úrkomu. Fyrst éljum en síðan rigningu með björtu á milli. Eftir það verður hann hægur svo langt sem reiknaðar spár sjá, en það er með pólitískar veðurspár eins og aðrar spár að áreiðanleikinn minnkar eftir því sem lengra þær ná,“ segir Siggi stormur.