Nú stendur söfnunarátakið Mottumars sem hæst. Allir alvöru karlmenn skarta fallegum mottum til að minna á átakið sem snýst um að vekja karla til vitundar um krabbamein og safna fé til rannsóknar á krabbameini í körlum. Skólastjórinn í Salaskóla, Hafsteinn Karlsson, hefur gengið lengra en margir aðrir karlar í að vekja athygli á söfnuninni. Hann setti sér í upphafi það markmið að safna 30 þús. krónum og hét því að ef að upphæðin yrði hærri þá myndi hann lita mottuna fallega bleika. Það var svo um helgina að þrítugasti þúsundkallinn datt inn og Hafsteinn varð að standa við stóru orðin Hann kom við hjá rakaranum í Kompaníinu og Sirrý Huld smellti lit á mottuna. Hafsteinn mætti svo í vinnuna með fagurbleika mottuna sem vakti mikla athygli bæði nemenda og starfsmanna.
Söfnunarátakið stendur til 21. mars. Þeir sem vilja styrkja átakið geta farið inn á mottumars.is og þar er hægt að heita á Hafstein eða aðra þátttakendur í söfnuninni. Hver þúsundkall skiptir máli.