Hákon Gunnarsson býður sig fram í forvali Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara þann 14. maí 2022. Hann gefur kost á sér í 1.-2. sæti.
„Ég hef alltaf haft mikla og sterka tilfinningu fyrir því að vera Kópavogsbúi,” segir Hákon í yfirlýsingu. „Ég er stoltur af því og hér á ég mínar rætur og mínir bestu vinir fyrir lífstíð eru héðan. Kópavogur sem samfélag er risastórt í íslensku samhengi. Í bænum búa 10% þjóðarinnar og Kópavogsbær er þriðji stærsti vinnustaður landsins með 2.100 starfsmenn. Þá er Kópavogur í miðju höfuðborgarsvæðisins og þróunin hér í bænum hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir höfuðborgarsvæðið allt.
Ég er borinn og barnfæddur Kópavogsbúi. Foreldrar mínir voru meðal frumbyggjanna í bænum og tóku virkan þátt í mótun nærsamfélagsins hér. Ég ólst upp í stórum systkinahópi, gekk hér í skóla og tók virkan þátt í félagsstarfi og íþróttum. Ég hef verið virkur í knattspyrnudeild Breiðablik um áratugaskeið, en hún er sú stærsta á landinu, bæði sem leikmaður og sjálfboðaliði.
Kópavogur stendur á tímamótum. Í stað vaxtar og landnáms með tilheyrandi fólksfjölgun er kominn tími á að huga að innviðum og samfélagsuppbyggingu. Kópavogsbær þarf tryggja að viðhorf og hagsmunir íbúa sem fyrir eru á svæðinu komi fram og rödd íbúa fái alltaf að heyrast.
Ég lauk stúdentsprófi frá MH, kandidatsprófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í stefnumótunarfræðum við Copenhagen Business School. Eftir framhaldsnám í Danmörku gegndi ég ýmsum stjórnunarstöðum í atvinnulífinu en frá 2019 hef ég verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá Resource International, umhverfisverkfræðistofu sem hefur aðsetur Kópavogi.
Ég er búsettur á æskuslóðum í miðbæ Kópavogs og formaður húsfélagsins í Fannborg 1-9 en þar eru 103 íbúðir.“