Leiðari. Auðun Georg Ólafsson

Hér í Kópavogsblaðinu var eitt sinn viðtal við listamenn sem vildu gjarnan sjá Hamraborgarsvæðið vaxa og dafna sem miðbæ Kópavogs. Hamraborg var, að þeirra mati, „korter í að vera kúl“ með byggingum sem minntu svolítið á austurhluta Berlínar rétt fyrir fall múrsins. Stemningin svolítið svipuð og í kvikmyndinni um Dýragarðsbörnin, Christiane F. Skuggaleg starfsemi og sóðaskapur hefur fengið að þrífast allt of lengi í skjóli háhýsanna eða myrkurs í bílakjallaranum. Vonandi verða nýjustu áform bæjaryfirvalda til þess að mannlíf í Hamraborg megi blómstra. Auk fyrirhugaðrar uppbyggingar á svæðinu eru bæjarskrifstofurnar í glæsilegu húsnæði við Digranesveg, Menningarhúsin eru gríðarlega öflug með fjölbreyttri starfsemi, Bókasafnið, Tónlistarskólinn og Salurinn eru þarna, svo dæmi séu nefnd, ásamt öllum fyrirtækjunum sem bjóða margvíslegar vörur og þjónustu. Hamraborgin hefur allt til að vera einn mest spennandi staður til uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Á endanum snýst þetta allt um fólkið sem þar starfar og býr og hlúir að nærumhverfi sínu.

Facebook
Instagram
YouTube
RSS