„Hamraborg hamingjunnar þarf homma, listamenn og útlendinga.“

WP_20140219_14_14_12_Pro__highres
Vignir Rafn Valþórsson,leikstjóri,Tyrfingur Tyrfingsson, leikskáld og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona, eiga öll rætur að rekja til Kópavogs og standa að leiksýningunni Bláskjár sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Þau hafa ákveðnar skoðanir á uppbyggingu Hamraborgarinnar.

„Hamraborg hamingjunnar þarf homma, listamenn og útlendinga,“ segja aðstandendur leikritsins Bláskjár sem gerist í Kópavogi. Við settumst niður á veitingahúsinu Catalinu í Hamraborg og fengum okkur rauðsprettu í hádegiinu með þeim Tyrfingi Tyrfingssyni, höfunda verksins, Vigni Rafn Valþórssyni, leikstjóra og Arndísi Hrönn Egilsdóttur, sem fer með stórt hlutverk í sýningunni. Talið barst fljótlega að uppvaxtarárum þeirra í Snælandinu og um möguleikana sem eru í Hamraborg.

Fyrsta leikrit í heimi sem gerist í Kópavogi

Vignir: „Okkur Tyrfingi fannst að leikritið yrði að gerast í Kópavoginum. Hér ríkti skálmöld þegar bláu ruslatunnurnar voru kynntar til leiks. Allt varð vitlaust í bænum. Þetta setti ráðsett fólk alveg á hliðina. Það var búið að teikna og byggja húsin sín og svo þurfti allt í einu að bæta við ruslatunnu sem passaði engan veginn inn í skipulagið. Heilu jólaboðin fóru í að hneykslast á þessu.“

Tyrfingur: „En leikritið er samt ekki bara um ruslatunnur í Kópavogi. Það fjallar um systkini sem búa í kjallara í vesturbæ Kópavogs. Pabbi þeirra er nýdáinn. Yngri bróðir þeirra, sem hefur búið á efri hæðinni ætlar að taka við af karlinum og leikurinn berst um Hamraborg, Smáratorg og víðar í bænum. Leikritið kemur inn á feðraveldið, grimmdina, ofbeldið og veikburða getu okkar til þess að segja hvert öðru satt – og svo auðvitað Bláskjá og sígaunana.“

Vignir: „Okkur langaði til að gera fyrsta leikrit í heimi sem gerist í Kópavoginum. Við erum öll tengd bænum á einhvern hátt. Hér ólumst við upp og slitum barnsskónum. Ég ólst upp í Álfatúni í Snælandinu þar sem foreldrar mínir búa enn. Arndís bjó í Víðigrund frá tíu ára til tvítugs og Tyrfingur ólst upp í Fífuhjallanum. Þess má líka geta að Högni Egilsson, í Hjaltalín og bróðir Arndísar, semur tónlistina í verkinu en hann bjó í Kópavogi til sex ára aldurs.“

Arndís: „Við þyrftum að sýna verkið í Kópavogi. Það sem er í pípunum er að ferðast með það út í heim. Það væri gaman að enda heimsreisuna á Rútstúni og bjóða bæjarbúum á lokasýningu. Hver veit? Hugurinn leitar oft til Kópavogs. En það er svolítil Kristína F stemning yfir Hamraborginni. Vantar meiri gleði í hana. Hún minnir mig svolítið á Austur-Berlín.“

Hamraborg hamingjunnar

Tyrfingur: „Hér eru falleg, fúnkísk hús. Það eina sem þarf að gera er að bæjaryfirvöld bjóði 3-4 hommapörum ókeypis leigu á íbúðum í Hamraborginni í tvö ár. Þá verður þetta mjög „trendí“ og „in.“ Fólk fer að mála, það kemur grasblettur fyrir framan bókabúð Vedu, það mun spretta upp búð sem selur fatnað fyrir smáhunda, lífrænn markaður mun opna og mannlífið verður iðandi. Fasteignaverð mun rjúka upp og það verður slegist um búðarplássið í Hamraborg hamingjunnar.“

Vignir: „Já, ég er sammála þessu. Það má líka gera þá kröfu að þeir sem verði hér hafi BFA gráðu (Bachelor of Fine Arts). Listamenn, hommar og svo útlendingar munu rífa þetta upp. Svo vantar bara ÁTVR og kaffihús. Bílageymslan gæti verið grænmetismarkaður um helgar. Strætó á síðan að fara beina leið niður á Lækjartorg. Ekkert millistopp í Kringlu. Bara bruna beint niður í bæ. Lækjartorg – Hamraborg. Leið A.“

Tyrfingur: „Eftir 50 ár verður Smáralindin ömurleg en Hamraborgin töff. Hún er korter í kúl.“

Arndís: „Já, þið segið nokkuð. Ég sæki mér reyndar gleðina í snyrtistofu Jónu í Hamraborginni sem er alveg frábær.“

Vignir: „Þessi hæðaskipting á milli götunnar og bílastæðanna er úthugsuð og flott. Hér er líka eina bensínstöðin sem er innanhúss í Evrópu. Og ef ég þarf að láta snoða mig þá liggur leiðin beint á Sevilla.“

Tyrfingur: „Ég hef oft verið fullur í Hamraborg. Í einu fyllerínu datt mér í hug að kaupa gjafakort í kínverskt nudd og gefa pabba það í jólagjöf. Hann nýtti það nú aldrei en ég held að hann hafi misst af miklu.“

Arndís: „Mig er farið að dreyma Hamraborgina núna ótrúlega oft.“

Vignir: „Já, í leikritinu kemur það líka fyrir að systkinin dreyma um að reisa styttu af föðurnum. Hún myndi sóma sér vel í Hamraborg.“

Margir uppáhalds staðir í Kópavogi

Tyrfingur: „Ég hef aðeins verið að hugsa um uppáhalds staðinn minn í Kópavogi. Skítalækurinn var lengi í uppáhaldi. En núna myndi ég segja Smáratorg, vegna þess að ég er svo oft þar, eða Hamraborgin. Það er eitthvað svo raunverulegt við hana. Hamraborgin er bara Hamraborgin og er ekki að reyna að þykjast vera eitthvað annað en það sem hún er. Laugavegurinn er alltaf að reyna að vera einhver tískugata í New York, sem hún er ekki. En Hamraborgin er aldrei að fara að falla ofan í einhverja tískugryfju frá útlöndum. Ég kann mjög vel við það.“

Vignir: „Ég er alin upp í Snælandinu, í Fossvoginum og það var eins og að vera í litlu sjávarþorpi úti á landi. Ég óð stundum berfættur í skítalæknum alveg innst í dalnum þar sem Víkingsheimilið er og niður Fossvoginn. Ég man að stundum voru þar álar og að á einum stað var djúpur hylur, sem við krakkarnir í hverfinu stukkum út í. Þarna var foss, við reyktum njóla og söfnuðum dóti. Það var yndislegt að alast þarna upp. Ég fékk mér göngutúr þarna um daginn til foreldra minna og það var frábært að sjá hvað búið er að laga mikið til. Þetta er falleg gönguleið með góðum göngustígum og svo eru brýrnar yfir lækinn einstaklega fallegar. Þetta er minn uppáhalds staður í Kópavogi.“

Arndís: „Hjá mér er það félagsmiðstöðin Agnarögn sem ég átti þátt í að hrinda í framkvæmd. Ég var allt í öllu þarna á fyrstu dögunum og gekk í öll störf. Þetta var á pönk/nýbylgjutímanum og ég man að Band Nútímans var hljómsveitin númer eitt og aðal töffararnir. Svo á ég líka góðar minningar frá Skiptistöðinni og undirgöngunum.“

Vantar atvinnuleikhús

Tyrfingur: „Eitt langar mig að koma á framfæri. Það er ekkert atvinnuleikhús í Kópavogi. Það er algjör skandall fyrir næst-stærsta sveitarfélag landsins. Það er atvinnuleikhús á Akureyri og í Hafnarfirði, en ekki í Kópavogi. Það hlýtur að vera hægt að gera þarna betur. Það er margt jákvætt í Kópavogi en atvinnuleikhús er tvímælalaust eitthvað sem ætti tafarlaust að stefna að. Og að lokum: Allir að drífa sig að sjá Bláskjá í Borgarleikhúsinu!“

WP_20140219_14_13_59_Pro__highres
Vignir Rafn Valþórsson,leikstjóri,Tyrfingur Tyrfingsson, leikskáld og Arndís Hrönn Egilsdóttir, leikkona.

Umræðan

Fleiri fréttir

Flautukórinn í frægðarför

„Við komum heim með fullt af gulli, silfri og bronsi rétt eins og á Ólympíuleikunum,” segir kampakát Pemela De Sensi, flautukennara Tónlistarskólans í Kópavogi. Flautukór kórsins lagði nýverið Sikiley á

Líf og fjör á Hamraborgarhátíð

Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og sýningarstjóri Hamraborgarhátíðarinnar í ár. Agnes útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2015 en stundar nú nám í sýningastjórnun við Háskóla Íslands. Agnes sýndi

Gunnar Helgason.

Bókasafn Kópavogs í haust

Haustið ber með sér rútínu, kertaljós og appelsínurauða tóna, en á Bókasafni Kópavogs er dagskráin að fara í gang með vinsælum viðburðum fyrri ára í bland við nýja og spennandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Vindur í eigu þjóðar

Á flokksráðsfundi okkar Vinstri grænna sem haldinn var í Reykjanesbæ um liðna helgi var ítrekað mikilvægi þess að mörkuð verði stefna um nýtingu vinds til orkuöflunar á Íslandi. Við viljum

Gamlar fréttir úr sarpinum

Kopavogskirkja
Hannes_mynd
Bragi-Halldorsson-Krossgatur
Matstöðin
Ómar Stefánsson  skipar 1. sæti Fyrir Kópavog
1d43e201-4cd7-4596-a99e-154fc72e4256
Jón Finnbogason
Sigurður
Menningarhús Kópavogs