Hamraborgin „eins og lítið álver.“

Það gera sér ekki margir grein fyrir hversu Hamraborgin er fjölmennt atvinnusvæði. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni þá starfa 254 starfsmenn í 111 einkahlutafélögum í Hamraborg. Þá eru ótaldir þeir sem starfa fyrir félagasamtök sem hafa aðstöðu í Hamraborg. Til samanburðar má nefna að um 450 manns starfa í álverinu í Straumsvík þannig að óhætt er að segja að Hamraborgin, sem starfsstöð, slagi upp í lítið álver.

Sigrún Gísladóttir og maður hennar, Hörður Rögnvaldsson, eiga og reka Café Dix í Hamraborginni. Þau fagna nú þriggja ára afmæli staðarins. „Við erum nú að íhuga að hafa opið hjá okkur til klukkan 22 á kvöldin á virkum dögum og hafa einnig opið yfir daginn um helgar,“ segir Sigrún. „Traffíkin er orðin það mikil hjá okkur að við þurfum líklega að fara að fjölga starfsfólki.“

Hjónin Sigrún Gísladóttir Hörður Rögnvaldsson, eiga og reka Café Dix í Hamraborginni.
Hjónin Sigrún Gísladóttir Hörður Rögnvaldsson, eiga og reka Café Dix í Hamraborginni.

-Og þið eruð saman í rekstrinum, hjónin. Er það ekki stórvarasamt fyrir sambandið?

„Tja, við höfum nú verið gift í 40 ár þannig að þetta hefur gengið ágætlega,“ segir Hörður og hlær. „Þetta hefst bara með virkum samskiptum og okkur líkar þetta mjög vel.“

-Eruð þið bæði úr Kópavogi?

„Já, ég á hér djúpar rætur,“ segir Sigrún. „Ég er alin upp í vesturbænum og við Hörður giftum okkur í Kópavogskirkju en hann er úr Vestmannaeyjum. Fyrir mér er Hamraborgin miðbær og hjarta Kópavogs. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það áfram verða. Ég man eftir að hér var áður bíó, dansskóli, læknir og apótek og hér var aðal samkomustaður bæjarbúa. Núna er hér mjög blómlegt mannlíf og mikil uppbygging. Kópavogsbúar ættu að gera miklu meira af því að koma í Hamraborgina og sjá þá flóru atvinnulífsins sem hér er,“ segir Sigrún.

-Hvað finnst ykkur um umræðuna um Hamraborgina að undanförnu?

„Hún er búin að vera mjög dapurleg en það er vonandi að áætlanir gangi eftir með að það rísi íbúðarhótel i Hamraborg 5-7 sem hefur verið mikið í fréttunum að undanförnu og milli tannana á fólki,“ segir Hörður. „Þegar við komum hérna var Hamraborgin mjög sorglegur staður. Það vantaði upp á þrif og umhirðu hérna. Það var allt í niðurníslu og mjög skítugt.  Fljótlega eftir að Miðbæjarsamtökin voru stofnuð, árið 2011, lagðist bærinn á árarnar um að lyfta þessu upp. Sumarið 2012 var af miklum myndarskap ráðist í að pússa veggi og þrífa helstu svæði. Þetta hefur þvi miður svolítið staðnað í ár en ástandið er samt miklu betra en það var. Hamraborgarhátíðin hefur líka virkað sem gríðarleg hvatning fyrir fólkið hérna og íbúana að vera stolt hvaðan það kemur og nálgast umhverfi sitt af virðingu. Það er mjög nauðsynlegt að halda þeirri hátíð áfram. Hún er mjög merkileg sem Kópavogsbær á að sjá sóma sinn í að styrkja og efla. Það eru ekki mörg tilefni fyrir Kópavogsbúa að hitta mann og annan nema þegar þeir fara saman i Smáralind að versla fyrir jólin. Það kemur gífurlegur fjöldi á hátíðina og allir tala um hvað þetta lyftir upp bæjarbragnum.“

-Hvers vegna ætti fólk að koma í Hamraborg?

„Það er allt hérna. Fólk veit bara ekki af því, einhverra hluta vegna. Hér er til dæmis Sjúkraþjálfun Kópavogs sem er ein sú besta á landinu. Móðurást er sérhæfð barnafataverslun þar sem hægt er að fá kennslu og leiðbeiningar varðandi brjóstagjafir. Snyrtistofan Jóna er búin að vera i Hamraborg í yfir 20 ár og þykir vera ein sú besta á landinu. Það voru nýjir aðilar að taka við rekstri bókabúðarinnar. Margir þekkja blómabúðina í Hamraborg og svo er hér nýr Indverkur veitingastaður, Bombay Bazar, sem fær góða dóma. Hér er líka Oxxo kvenfataverslun, Mind tískuverslun, Ynja undirfataverslun ásamt alls konar hönnunarfyrirtækjum, spámiðil, nálastungusérfræðingi og endalaust fleira af góðum fyrirtækjum sem gott er að versla við,“ segir Sigrún.

-Er Hamraborgin þá miðbær Kópavogs í ykkar huga?

„Alveg klárlega. Til viðbótar öllum fyrirtækjunum hérna, og þá miðbæjarhefð sem hér er, þá eru allar menningarstofnanir Kópavogs í seilingarfjarlægð við Hamraborgina. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að miðbæjarkjarnar verða sterkastir þar sem stofnanir bæjarins eru staðsettar. Það er því alveg klárt að Hamraborgin er miðbær Kópavogs. Hér slær hjarta Kópavogs,“ segja hjónin Sigrún Gísladóttir og Hörður Rögnvaldsson hjá Café Dix í Hamraborg.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Niðurlagning Héraðsskjalasafns Kópavogs

Skaðræðisgjörningur bæjarstjórnar Kópavogs Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum 25. apríl 2023 með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þar fetaði bæjarstjórnin í slóð

Hrönn Valgeirsdóttir, leikskólakennari og M.A. í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf.

Mikill áhugi á fræðslukvöldum fyrir foreldra

Foreldrum og forsjáraðilum leikskólabarna í Kópavogi stendur til boða að mæta á fræðslukvöld þar sem fjallað er um uppeldishætti, að setja mörk og ábyrgð og líðan foreldra. Fyrsti fundurinn var

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn