Miðvikudagskvöldið 7. nóvember var mikið um að vera í Háskólabíói. Þar voru saman komin um 150 börn og ungmenni úr Kópavogi ásamt foreldrum, systkinum og jafnvel fleirum úr fjölskyldunni. Tilefnið var hausttónleikar Skólahljómsveitar Kópavogs og var að venju mikið fjör. Nemendur SK skiptast í þrjár sveitir eftir aldri og getu og komu þær allar fram þetta kvöld. Fyrst á svið voru yngstu krakkarnir, A sveitin, sem mörg hafa aðeins lært á hljóðfærin sín í nokkra mánuði og stóðu þau sig ótrúlega vel. Áhorfendur hrifust af einbeitni þeirra og gleði og klöppuðu þeim mikið lof í lófa að flutningi loknum. Stjórnandi A sveitar var Össur Geirsson. Næst á svið var svo B sveitin sem stóð sig ekki síður vel en henni stjórnaði Jóhann Björn Ævarsson og var þetta í fyrsta sinn sem hann stjórnaði hljómsveit SK á hausttónleikum. Eftir hlé voru það svo stóru krakkarnir í C sveitinni og Össur sem áttu sviðið. Spiluðu þau skemmtilega blöndu af norrænni tónlist og kvikmyndatónlist sem áheyrendum líkaði greinilega mjög vel því fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna. Það má því með sanni segja að Kópavogsbúar hafi skemmt sér vel í Háskólabíói þetta kvöld og fjölskyldur átt skemmtilega stund saman.
Allur réttur áskilinn. Kópavogsblaðið slf. 2024.