Sigurður Sigurbjörnsson, sem var kallaður „Siggi pönk“ á sínum yngri árum, hékk oft með vinum sínum á gömlu skiptistöðinni og í undirgöngunum þegar pönkið og nýbylgjan tröllreið öllu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. 16 ára lagði hann pönkgallanum, klæddi sig í fermingarfötin og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Þar hefur hann verið „að pönkast“ að eigin sögn allar götur síðan og er nú stjórnarmaður í Sjálfstæðisfélaginu í Kópavogi.
Skiptistöðin er horfin en göngin undir Digranesveg eru ennþá á sínum stað, þó búið sé að loka fyrir stærsta hluta þeirra. Nú er um það rætt að gera eitthvað við gömlu göngin. Varðveita betur gömlu pönksöguna, sem Kópavogur er frægur fyrir, og breyta göngunum í aðstöðu fyrir skapandi krakka eða æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir.
Við báðum Sigurð að rifja upp kynni sín af undirgöngunum.