Heiðrar minningu frumkvöðla Breiðabliks og allra þeirra sem komu að byggingu Vallargerðisvallar

Vill reisa styttu af Valda vallarverði.

Heiðar Bergmann Heiðarsson hefur síðustu þrjú ár unnið að gerð heimildamyndar um Vallargerðisvöll
Heiðar Bergmann Heiðarsson hefur síðustu þrjú ár unnið að gerð heimildamyndar um Vallargerðisvöll.

Heiðar Bergmann Heiðarsson hefur síðustu þrjú ár unnið að gerð heimildamyndar um Vallargerðisvöll sem nú er komin út. „Það er ákveðinn léttir núna, smá eftirvænting og dass af kvíða um hvernig myndinni verður tekið,“ segir Heiðar. „Ég hef aldrei staðið í svona sporum áður. En svo kemur tómleikatilfining. Hvað á ég að gera núna eftir að hafa varið óteljandi stundum í viðtöl; yfirfarið þau, leitað heimilda og að endingu klippt allt saman og þjappað tuttugu stunda efni niður í klukkutíma? Ég er búinn að eyða síðustu þremur árum í þessa vinnu,“ segir Heiðar.

Vallargerðisvöllur í þá gömlu góðu daga.
Vallargerðisvöllur í þá gömlu góðu daga.

vallargerdi1

Hvernig kom það til að þú fórst að gera heimildarmynd um Vallargerðisvöll?
„Hugmyndin kviknaði þegar ég var að taka viðtal við Inga Gúst og Heimir Porca fyrir ársrit Breiðabliks fyrir nokkrum árum en þá sagði Ingi: „Þetta var bara okkar annað heimili, þarna vorum við allan daginn. Svo var kallað á okkur í mat og við fórum síðan aftur út á völl.“ Þetta held ég að hafi verið kveikjan. Ég talaði við Ómar Stefánsson, vallarstjóra, og fékk lánaðan lykil hjá honum að baðhúsinu. Þegar ég kom þar inn og settist á gamla trébekkinn í búningsklefanum þá hreinlega öskruðu veggirnir á mig sem geyma margar minningar og sögur. Ég tók til dæmis viðtal við Jón Inga Ragnarsson, sem varð formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks á fyrstu árum deildarinnar aðeins 15 eða 16 ára gamall. Hann gekk inn í klefann og fór rakleiðis að snaganum sínum. Hann átti sinn snaga og ef einhver vogaði sér að hengja eitthvað á snagann hans þá varð hinn sami að taka fötin sín eða sækja þau í sturtuna því Jón Ingi var búin að henda þeim þangað. Allir viðmælendur mínir sögðu alltaf það sama að þetta hefði verið eins og þeirra annað heimili. Allir minntust síðan á Valda gamla og hans störf þarna. Hann gerði við bolta og lánaði öllum bolta sem komu. Hann hélt við öllum netum á öllum sparkvöllum Kópavogs. Mig langaði mjög mikið með þessari mynd að heiðra minningu allra þeirra sem komu nálægt byggingu Vallargerðisvallar og þeirra frumkvöðla sem stofnuðu Breiðablik á sínum tíma. Þvílík vinna sem það hefur verið að byggja upp þetta félag og skila því til okkar sem tóku við keflinu.“

Hvaðan kemur áhugi þinn á kvikmyndagerð? Hefur þú verið að læra að búa til heimildamyndir?
„Nei, ég hef ekkert verið að læra þetta neitt sérstaklega. Eina námskeiðið sem ég hef farið í var í 8. eða 9. bekk í Víghólaskóla þar sem Marteinn Sigurgeirsson var að reyna að kenna okkur. Þá var allt tekið upp á filmu. Við Duffi (innsk: Steingrímur Dufþakur Pálson) gerðum teiknimynd og einn leikinn skets þar sem við fengum Eyjó (innsk: Eyjólf Kristjánsson) til að leika því hann var eini frambærilegi leikarinn á þessum tíma sem við þekktum. En Duffi var náttúrlega með þetta í blóðinu en hann er sonur eins mesta kvikmyndagerðarmanns íslandssögunar, Páls Steingríms frá Eyjum. Matti, bróðir, átti upptökuvél fyrir 8mm og var mjög iðinn við að taka upp allt og af okkur systkinunum. Svo kom pabbi minn með VHS vél frá Bandaríkjunum eftir eitt ferðalagið. Ég var sá eini sem lærði á hana og notaði alveg óspart, en aðalega til að taka sjálfan mig upp. Ég er líka sjálfhverfur maður með eindemum, eins og sést á öllum þessum myndböndum sem ég hef verið að gera fyrir Breiðablik,“ segir Heiðar og hlær. „En ætli ég fari að drífa mig á eitt námskeið eða tvö til að læra aðeins meira fyrir næsta verkefni nú þegar þessu er lokið.“

Ertu að fara gera fleiri heimildamyndir?
„Já, það er svo gaman að segja sögur. Ég komst að því þegar ég var að gera þessa mynd að það er fullt af fólki þarna úti; frumbyggjar Kópavogs sem hafa frá svo mörgu að segja. Það var ekki alltaf „gott að búa í Kópavogi.“ Það var skítt þegar þurfti til dæmis að sækja vatnið langar vegalengdir og hita upp skúrana með skít af túnum. Það fraus í koppunum í Kópavogi. Þarna er kannski heitið á myndinni komið. Það þarf að ná fólki sem man eitthvað ennþá og varðveita þá sögu. Þetta eru svo merkilegar heimildir um bæinn. Foreldrar mínir fengu lóð í austubænum og byggðu húsið sitt þar. Pabbi rak fyrirtæki í Kópavogi í 50 ár og er enn með sömu kennitöluna. Kópavogsbær á að vera stoltur af því fólki sem byggði bæinn og gerði hann að því sem hann er í dag. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég missti tvo viðmælendur þegar ég var að vinna við þessa mynd. Sigurður Grétar Guðmundsson, fyrrum formaður Breiðabliks og mikill frumkvöðull í leikfélaginu, féll frá rétt eftir að ég hafði samband við hann. Við ætluðum að mæla okkur mót og spjalla um liðna tíð þegar hann veiktist og lést. Síðan fór Sigmundur Eiríks (Simmi), sem spilaði með Breiðablik á upphafsárum þess. Ég náði stutt viðtal við hann áður en hann féll frá, sem verður í myndinni. Við verðum að ná því fólki sem byggði bæinn. Síðan ætla ég að halda áfram að taka upp fyrir Breiðablik og segja frá öllu því góða fólki sem þar starfar. Það má geta þess að ég held úti feisbókarsíðu sem heitir Vallargerðisvöllur en þar hef ég sett inn fullt af viðtölum sem rötuðu ekki í myndina. Fólk má endilega fara inn á síðuna og líka og deila. Það er fullt af efni sem á eftir að koma þar inn.“

5 4

Hvaða viðmælendur í myndinni um Vallargerði voru eftirminnilegastir?
„Þegar ég byrjaði að setja saman hóp viðmælanda þá fór ég að hugsa hvernig best væri að gera þetta. Þetta var stór hópur og ég vissi að ég mundi ekki ná öllum til mín. Ég flokkaði því hópinn og reyndi alltaf að fá tvo og tvo saman til mín í viðtal. Það gaf þessu meira líf og menn létu meira flakka. Síðan reyndi ég að para saman þá sem eru á jöfnum aldri og og voru kannski á sama tíma í liðinu. Það eru líka mæðgur sem spiluðu á Vallargerð; Ásta, Gréta og Hófí og þær varð ég að fá til mín. Og það var ein fjölskylda sem ég varð að fá í viðtal þar sem pabbi þeirra ríkti á Vallargerðisvelli, með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem stjórnuðu eða komu að félaginu. En það var fjölskyldan hans Valda vallarstjóra. Það gekk ekki þrautarlaust að fá þau öll í einu í viðtal. Rósa býr á Höfn í Hornafirði og ef hún komst í bæinn þá komust hin ekki. En sem betur fer þá fannst tími nú í vor og þau komu öll nema Kristín. Það var óborganlegt að hlusta á þau lýsa pabba sínum og veikindum mömmu þeirra og þar fram eftir götunum. Valdi var ekki bara fisksali, vallarvörður eða vallarstjóri. Hann var líka faðir sex barna sem öll þurftu sitt. Þetta hefur ekki verið neinn dans á rósum. En þvílík fjölskylda! Og hvernig þau hafa öll hjálpast að og tekist á við öll verkefni sem hafa komið, óumbeðin.

"Valdi var ekki bara fisksali, vallarvörður eða vallarstjóri. Hann var líka faðir sex barna sem öll þurftu sitt. Þetta hefur ekki verið neinn dans á rósum."
„Valdi var ekki bara fisksali, vallarvörður eða vallarstjóri. Hann var líka faðir sex barna sem öll þurftu sitt. Þetta hefur ekki verið neinn dans á rósum.“
Dæmigerð mynd af Valda vallarstjóra við hefðbundin viðhaldsstörf á Vallargerðisvelli.
Dæmigerð mynd af Valda vallarstjóra við hefðbundin viðhaldsstörf á Vallargerðisvelli.

Það var líka gaman að ég gat sameinað fullt af fólki eins og Birgittu og Sigrúnu Ingólfs og þá bræður Einar, Hinrik og Tóta Huldu og Þórhallssyni. Jónas Pállson fyrsti skólasálfræðingur Kópavogs sagði frá sinni aðkomu að Vallargerði. Síðan var ótrúlega gaman að hlusta á Gumma Þórðar og Gissur löggu. Það var eins og þeir höfðu ekki hist í mörg ár. Stússi (innsk: Steindór Elíson) og Bonni komu þegar Gummi og Gissur voru í viðtali og það var eins og þegar aldavinir hittast. Gissur þjálfaði Bonna litla. Svo komu bræður til mín sem ólust upp á vellinum, en það voru þeir Þorgeir (Goggi) og Vignir Baldurs. Það sem þeir gátu malað maður! Já, svo fékk ég hann Baltasar Kormák til að tjá sig líka, en hann var mjög önnum kafinn en gaf sér samt tíma. Ég sagði honum að vera ekki að hlægja að tækjabúnaði mínum sem voru tvær einfaldar myndavélar. „Blessaður vertu, ég hef séð það verra,“ sagði Balti. Það þarf ekkert meira til að gera góða bíómynd. En svo var ég náttúrulega með kappa eins og Þórð Guðmundsson og Guðmund Óskars; Pétur Sveins og Baldur Púskas, Loga Kristjáns og síðast en ekki síst kom hann Jón Ingi til mín en hann og þeir Goggi og Þórður Guðmundsson voru mínir endurskoðendur. Þeir kíktu yfir frumgögnin til að kanna hvort ekki væri satt og rétt sagt frá. Ég á þeim miklar þakkir fyrir. Svo má ég ekki fara í svona viðtal nema að þakka sérstaklega honum Marteini Sigurgeirs, fyrrverandi læriföður mínum í kvikmyndagerð en hann var svo almennilegur að lána mér efnið sitt sem hann tók, eins og viðtal við Gest Guðmund og ýmsar myndir af Vallargerði.

Hvar verður myndin sýnd?
Það hefur komið til tals að sýna myndina í Salnum en Kópavogsbær hefur styrkt verkefnið og eiga þeir þakkir fyrir það. Svo er spurning að sýna hana á RIFF kvikmyndahátíðinni sem verður í Kópavoginum í haust. Myndin er núna til sölu í Smáranum og einnig hjá mér. Það er um að gera senda mér bara skilaboð á facebook eða á heisiheison@gmail.com. Ég hef selt hana á 3000 krónur og ætla mér að láta hluta af andvirðinu renna í sjóð sem ég ætla að nefna „Valdasjóður“ en mig langar til að láta gera brjóstmynd af Valda gamla og stilla henni síðan upp við göngustíginn hjá Kópavogsvelli til minningar um þann mæta mann.

Eitthvað að lokum?
Já ég vil kannski fá að nota tækifærið og þakka pabba og mömmu, en pabbi skannaði fullt af myndum fyrir mig og mamma gaf honum kaffi á meðan. Maður getur ekki þakkað þeim nóg fyrir það sem þau hafa gert fyrir mig í gegnum árin. Síðan verð að fá að þakka honum Ómari Stefánssyni fyrir aðstoðina en hann var alltaf boðinn og búinn að rétta mér hjálparhönd í þessu ferli. Ég vil að sjálfsögðu þakka öllum þeim viðmælendum fyrir að koma til mín og aðstoða við að varðveita sögu Vallargerðis. Síðan hefði ég aldrei getað framkvæmt þetta nema hafa góðan stuðning frá stelpunum mínum. Konan mín, frú Sigrún Einars, sem er hárgreiðslumeistari í Skipt í Miðju í Hafnarfirði og dætur mínar, þær Anna Kristín, sem býr í Danmörku, og Kristbjörg Eva, sem býr norðan heiða á Akureyri, eru virkilega búnar að halda mér við efnið. Önnur er reyndar búin að gera mig að tvöföldum afa. En þær eru báðar í hjúkrunarnámi þannig að ég er gulltryggður í ellinni,“ segir Heiðar Bergmann Heiðarsson með blik í augum.

vallargerdi2 - Copy 2 Vörubíll Kópavogi A 4

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn