
Konráð O. Kristinsson, eða Konni – eins og flestir Blikar þekktu hann – er fallinn frá, 93 ja ára að aldri. Konni var einn af frumherjum stuðningsmanna knattspyrnudeildar UBK. Hann byrjaði að fylgjast með Blikaliðinu upp úr 1970 þegar synir hans fóru að æfa með félaginu. Smám saman fór hann að taka að sér trúnaðarstörf fyrir deildina en þó aðallega bakvið tjöldin. Konráð var ekki sá aðili sem vildi vera í sviðsljósinu né að vera áberandi. Þau voru hins vegar óteljandi störfin sem hann og kona hans, María Sigurðardóttir, inntu af hendi fyrir knattspyrnudeild Breiðabliks. Þau tóku að sér að halda utan um starfið í fyrsta raunverulega félagsheimili knattspyrnudeildar, gamla sumarbústaðnum í Digraneshlíðunum. Konni var virkur í getraunastarfi deildarinnar fyrstu árin, var einn af stofnendum ,,Styrktarfélags knattspyrnudeildar“ með G. Ben, Hannesi Alfons og Gunnari Reyni endurskoðanda. Segja má að það hafi verið undanfari Blikaklúbbsins. Konni var að sjálfsögðu einn af stofnfélögum Blikaklúbbsins, hann var liðsstjóri meistararaflokks karla í mörg ár og sá um búningamál fyrir meistaraflokkinn í fjöldamörg ár. Það þarf vart að taka það fram að Aðalstjórn Breiðabliks hafði tilnefnt Konna sem Silfur, Gull og HeiðursBlika. Þar að auki fékk Konni sérstaka viðurkenningu frá Knattspyrnsambandi Evrópu (UEFA) fyrir grasrótarstarf.
Konráð átti við heilsuleysi að stríða undanfarin ár en fylgdist þó alltaf með liðinu sínu. Börn hans færðu honum alltaf fréttir af leikjum og Bikarmeistaratitilinn árið 2009 og Íslandsmeistaratitill árið 2010 glöddu hann mikið.
Konráð verður jarðsettur frá Digraneskirkju fimmtudaginn 15. ágúst n.k. kl. 15.00.
www.blikar.is