Mér finnst þú eigir að vera öðruvísi en þú ert. Ok?

Mig langar svo mikið að deila með ykkur hugsunum mínum síðustu daga. Ég hef verið að hugsa svo mikið um andlegu heilsuna. Að vera í andlegu jafnvægi skiptir ekki síður máli en líkamlegt jafnvægi.

Mér líður vel í dag, og þegar mér líður vel, langar mig að gefa af mér. Til ykkar.

Af hverju líður mér vel, akkúrat í dag? Ég vann ekki í lottó á laugardaginn. Ég hef ekki misst auka kíló af mér. Ég vann ekki í facebook leik og ég er ekki að fara í veislu í kvöld.

Hmmmm….

Sigga Karls er heilsuráðgjafi Kópavogsfrétta.
Sigga Karls er heilsuráðgjafi Kópavogsfrétta.

Í nótt var stormur. Ég verð oft andvaka þegar það er stormur úti. Mér finnst gott að liggja bara og hlusta á veðrið. Þá fæ ég tækifæri til að hugsa.

Mér varð hugsað til Maríu. Hún er kona í kringum sextugt. Hún er uppvaskari á vinnustað þar sem ég vinn stundum aukavaktir á.

Hún er pólsk og hún er dásamleg. Við eigum í mjög sérstöku sambandi. Við brosum svo breitt til hvor annarra (ég veit ekki alveg hvort þetta sér málfræðilega rétt) og kinkum kolli og segjum hæ. Mér þykir svo ótrúlega vænt um hana. Ég held hún viti það, þó ég hafi aldrei sagt henni það. Það ríkir mikil gagnkvæm virðing á milli okkar.

Á vinnustað þessum vinna örugglega hátt í hundrað manns. Það líkar öllum vel við hana. Í gærkvöldi þegar ég var að reyna sofna, þá fór ég svo mikið að hugsa um af hverju ég ber svona mikinn náungakærleik til hennar.

Ég áttaði mig á því klukkan svona eitt í nótt.

María, hefur eitthvað sem kallast æðruleysi. Hún tekur lífinu bara eins og það kemur til hennar. Hún reynir ekki að breyta aðstæðum sem hún er í, fólkinu í kringum hana eða bölvar öðrum. Hún bara er.

Hún vinnur í tveimur vinnum og er hörkudugleg. Hún er á við 3 starfsmenn og þá er ég ekki að krydda. Þegar hún mætir í vinnuna, þá kíkir hún ekki á hve margir eru að fara að borða. Hún andvarpar ekki og bölvar þeim 300 manns sem eru að borða frammi og hún þurfi að vaska allt upp eftir þau. Hún ákveður heldur ekki fyrirfram hvenær hún klárar að vaska upp og verður svo fyrir vonbrigðum ef hún kemst ekki heim klukkan ellefu, eins og hún var búin að ákveða. Hún bara tekur hvern og einn disk, raular lag og þrífur hann upp. Svo tekur hún næsta. Hún fer ekkert heim fyrr en hún er búin að þvo upp diskana. Enginn mótstaða.

-Hún bara er.-

Svo þar kom það. Þarna liggur hamingjan. Í æðruleysinu. Í Núinu. Ég var búin að frétta af því fyrr nokkrum árum að hamingjan liggur þar. Ég hef upplifað oft og mörgum sinnum Núið. Sérstaklega síðustu ár. En alltaf virðist ég gleyma því hvernig eigi að komast þangað. Það er líka svo erfitt að halda sig þarna, því ég fer svo oft að ákveða og áætla hvernig hlutirnir eigi að vera. Og verð svo fyrir vonbrigðum ef þeir koma út öðruvísi. Meira segja ef konan á undan mér í Bónus er lengi að setja í pokana, þá verð ég fyrir vonbrigðum með hana. En ég er að læra þetta.

Ég heimsótti gamlan mann í gærkvöldi. Hann býr í pínulítilli íbúð í miðbænum. Hann hefur ekki sturtu. Bara klósett og útvarp. Ég bankaði upp á hjá honum og hann var svo ánægður að sjá mig. Alvöru hamingjuglott og æðruleysi. Ekkert yfirborðshjal.

Hann sagði við mig að hann hefði allt sem hann þyrfti. Fengi mat sendan fyrir 550 krónur á dag, sígaretturnar sínar og svo stundum fengi hann sér vodka. Hann þarf ekki meira og finnst annað vera óþarfi. Hann er sjálfum sér nógur og elskar lífið nákvæmlega eins og það er. Hann bara er.

Í dag ætla ég að tileinka mér viðhorf þeirra, Maríu og gamla. Leyfa dóttur minni að sofa hálftíma þó svo að ég vilji að hún sofi í tvo tíma. Leyfa manninum fyrir framan mig í umferðinni að keyra á 30 ef hann vill það. Leyfa sjálfri mér að gleðjast, þó svo að það bíði ekki rauður sportbíll fyrir utan. Leyfa sjálfri mér að brosa framan í ókunnuga, þó að þeir haldi að ég sé væmin.

Leyfa lífinu að koma til mín nákvæmlega eins og það er og njóta! Njóta og vera.

Ég óska ykkur þess að fá að dvelja sem oftast í Núinu. Það er eins og litirnir verði skærari og lyktin betri þar.

Hafið yndislegan dag í dag, reynum að vera góð við hvort annað og LEYFA lífinu bara að flæða til okkar! Án áreynslu eða mótþróa. Leyfum bara allt og öllum að vera eing og þeir eru. Guð geymi ykkur.

Ykkar Sigga.

Heilbrigð heilsuráðgjöf er hér á Facebook.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Þúsundir íbúða í nýjum lífsgæðakjarna í Kópavogi

Áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða á Gunnarshólma Loftmynd af svæðinu Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að vísa áfram til samþykktar bæjarstjórnar drögum að viljayfirlýsingu við Aflvaka þróunarfélag um uppbyggingu 5.000

Kársnesskóla skipt í tvo skóla

Kársnesskóla verður skipt upp í tvo sjálfstæða skóla á skólaárinu 2024 til 2025 samkvæmt tillögu menntasviðs Kópavogsbæjar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Kópavogs. Lagt er til að skólanum verði

Jólatónleikar Samkórs Kópavogs

Samkór Kópavogs syngur inn aðventuna á sínum árlegu jólatónleikum sunnudaginn 3. desember n.k. Tónleikarnir verða í Digraneskirkju og hefjast kl. 17:00. Einsöngvari með kórnum að þessu sinni er tenórsöngvarinn Gunnar