Í málefnasamningi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er sérstaklega tekið á lýðheilsu eldri borgara í Kópavogi. Sú áhersla hefur trúlega aldrei verið eins aðkallandi og á þeim tímum sem við nú lifum. Að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, fékk Kópavogur úthlutað fjármagni til að stuðla að átaki á síðasta sumri til að rjúfa félagslega einangrun eldri borgara og auka virkni í hvers kyns félagsstarfi.
Lagt var upp með að auka framboð af hvers konar afþreyingu í félagsheimilum eldri borgara yfir sumarið líkt og er í boði yfir vetrartímann. Boðið var m.a. upp á boccia, tónleika, skipulagðar gönguferðir, skák, bingó og margt fleira mætti nefna. Um 1000 einstaklingar mættu á skipulega viðburði. Jafnframt var haft samband símleiðis við fólk þar sem boðið var upp á samtal eða heimsóknir og voru margir sem nýttu sér þá þjónustu. Að mati þeirra sem héldu utan um verkefnið skilaði það miklum árangri í að auðga félagslíf eldra fólks og rjúfa félagslega einangrun.
Í haust hófst samvinnuverkefni á milli Kópavogsbæjar, Breiðabliks, HK og Gerplu sem hefur það markmið að bæta lýðheilsu eldra fólks og fá inn í starf íþróttafélaganna. Búið er að ráða verkefnastjóra og halda kynningarfundi þar sem verkefnið var kynnt. Áætlað er að æfingar verði þrisvar í viku miðaðar að getu hvers og eins. Boðið verður upp á akstur frá félagsheimilum eldri borgara þeim að kostnaðarlausu. Áður en æfingar hefjast er heilsa fólks mæld og að loknu tímabilinu verður heilsa þátttakenda aftur mæld. Þriðja bylgja Covid hefur reyndar sett strik í reikninginn en um leið og ástandið kemst í eðlilegt horf mun verkefnið halda áfram af fullum krafti.
Það er metnaður okkar að stuðla að öflugu félagsstarfi eldra fólks þannig að sem flestir séu virkir í samfélaginu og minnki um leið félagslega einangrun. Það eru spennandi verkefni framundan á þessu sviði og ljóst að sú góða samvinna sem Kópavogsbær hefur náð við ólíka aðila hefur skilað miklu fyrir eldri borgara í Kópavogi. Þegar Covid faraldrinum lýkur mun félagsstarf eldri borgara í Kópavogi blómstra sem aldrei fyrr.