Verkefnið Virkni og vellíðan miðar að heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi. Um er að ræða samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Háskólans í Reykjavík, Ungmennasambands Kjalarnesþings og íþróttafélaganna þriggja í bænum, Breiðabliks, Gerplu og HK.
Fríða Karen Gunnarsdóttir og Eva Katrín Friðgeirsdóttir verkefnastjórar Virkni og Vellíðan stóðu fyrir mælingum á þátttakendum í desember í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Markmið mælinganna var að kanna áhrif þjálfunar á hreysti og velsæld eldra fólks. Mælt var meðal annars styrkur í efri og neðri líkama, gripstyrkur, liðleiki, jafnvægi og þol en auk þess voru spurningar lagðar fyrir þátttakendur. Niðurstöðurnar verða notaðar til að þróa verkefnið Virkni og vellíðan og stuðla áfram að farsælli öldrun. Fyrirhugað er að skrifa vísindagrein upp úr niðurstöðum rannsóknarinnar. Alls hafa nú um 140 þátttakendur í Virkni og vellíðan látið mæla sig en nú eru um 200 einstaklingar skráðir í verkefnið. Um 60 einstaklingar hafa sótt þjónustuna í félagsmiðstöðunum Gjábakka, Gullsmára og Boðaþingi.
Hægt er að hafa samband við Virkni og vellíðan í gegnum netfangið virkniogvellidan@gmail.com eða í gegnum fésbókarsíðu verkefnisins.