HK mun brjóta blað í íslenskri knattspyrnusögu á komandi keppnistímabili því meistaraflokkur karla verður fyrsta liðið í efri deildum til að vera með knattspyrnuhöll sem fastan heimavöll sinn á Íslandsmóti.Þetta kemur fram í frétt frá HK á hk.is
HK mun því ekki spila heimaleiki sína í Kórnum en ekki á Kópavogsvelli eða í Fagralundi.
„Við lítum ekki lengur á Kópavogsvöll sem okkar heimavöll, enda fluttum við nær alfarið af honum um mitt síðasta sumar og spiluðum seinni hluta tímabilsins í Fagralundi,“ segir Sigurjón Sigurðsson, formaður HK, við HK-vefinn.
„Auðvitað myndum við kjósa að spila áfram heimaleikina í Fagralundi en því miður er hvorki hægt að spila þar né á grasvellinum við Kórinn í 1. deild vegna skorts á aðstöðu fyrir áhorfendur. Þar fyrir utan er útlitið með grasvellina fyrir vorið ekki gott því það er hætt við að þeir séu mikið skemmdir vegna svellsins sem hefur legið á þeim. Í Kórnum er allt til alls, frábær aðstaða fyrir áhorfendur og góður gervigrasvöllur þar sem okkar lið æfir stóran hluta ársins. Við höfum sótt formlega um það til KSÍ að nota húsið sem okkar heimavöll,“ sagði Sigurjón.
Kórinn rúmar nákvæmlega 1.452 áhorfendur í sæti og húsið er löglegt fyrir landsleiki, enda hafa bæði A-landslið karla og kvenna spilað þar opinbera landsleiki á undanförnum árum, að því er fram kemur á HK-vefnum.