
Það var glatt á hjalla þegar fyrrverandi og núverandi nemendur Skólahljómsveitar Kópvogs ásamt öðrum gestum mættu á frumsýningu heimildarmyndar um feril hljómsveitarinnar í 50 ár. Marteinn Sigurgeirsson er höfundur myndarinnar en hann hefur síðustu misserin tekið upp tónleika hljómsveitarinnar og viðtöl við hljóðfæraleikara.
Myndin sýnir upphafsárin þegar forráðamenn Kópavogsbæjar fengu þá snjöllu hugmynd að stofna lúðrasveit fyrir grunnskólanema, sem ætluð var bæði stelpum og strákum þar sem nemendur fengu lánuð hljóðfæri til að læra á. Í upphafi var Björn Guðjónsson ráðinn stjórnandi sveitarinnar, en nemendur voru þá um fimmtíu. Á þessum árum gat hljómsveitin sér gott orð mjög víða, bæði innanlands sem utan. Björn helgaði hljómsveitinni alla sína starfskrafta frá stofnun hennar og allt þar til hann þurfti að láta af störfum vegna veikinda árið 1993. Skólahljómsveitin hefur gegnum tíðina verið áberandi í bæjarlífinu og átt gott samstaf við grunnskóa, íþróttafélög og kóra sem og ýmsar stofnanir bæjarins.

Össur Geirsson tók við stjórn Skólahljómsveitar Kópavogs af Birni. Hann steig sín fyrstu spor í skólahljómsveitinni árið 1972 og lærði í fyrstu á tenórhorn. Undir hans stjórn hefur hljómsveitin haldið sessi sínum, sem ein besta skólahljómsveit landsins. Í sveitinni hafa ungmenni í grunnskólum Kópavogs fengið gott tónlistarlegt uppeldi, lært að koma fram á opinberum vettvangi auk þess að skapa varanleg vinatengsl í góðum félagsskap. Í myndinni er fjöldi viðtala við þá sem ruddu brautina þar sem rifjuð eru upp minningabrot, sýnt er frá utanlandsferðum og hinum ýmsu tónleikum sem tengjast sögu þjóðarinnar. Mikið efni er til hjá RÚV en þar kom hljómsveitin oft fram og er sýnt brot af því í myndinni.
Myndin sem er um 75 mínútur að lengd er gefin út á DVD diski og er fáanleg hjá hljómsveitinni.
Facebook
Instagram
YouTube
RSS