Heimir Jónasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs. Heimir er fyrrverandi dagskrárstjóri Stöðvar 2 og hefur undanfarið starfað sjálfstætt sem ráðgjafi í auglýsinga- og markaðsmálum og þjónustað erlendar fréttastofur og kvikmyndafyrirtæki á ferð um landið. Heimir starfaði 2011-2016 sem framleiðandi og markaðsráðgjafi fyrir Íslensku auglýsingastofuna og hefur m.a. komið að mörgum verkefnum á svið ferðamála í tengslum við Inspired by Iceland og Icelandair ásamt því að starfa sem þjálfari hjá Dale Carnegie.
Heimir er Diplom Producer frá Kvikmyndaháskólanum í München og stundar nú MBA nám við Háskóla Íslands.
„Ég er mjög þakklátur fyrir að vera treyst fyrir þeim fjölmörgu spennandi verkefnum sem Markaðsstofa Kópavogs tekst á við og hlakka mikið til að starfa með fyrirtækjum, íbúum og starfsfólkinu hjá Kópavogsbæ. Hér er fjölbreytt fyrirtækjaflóra og stór fyrirtæki að setjast hér að. Kópavogur er öflugur íþróttabær og á menningarsviðinu hefur t.a.m. Salurinn náð að festa sig í sessi sem mikilvægt svið í tónlistarlífinu. Síðan eru það þessir risa viðburðir eins og tónleikarnir með Justin Timerlake í fyrra og Justin Bieber núna í haust í samvinnu við Senu. Þeir eru að koma Kópavogi á kortið sem bæ stórviðburða. Það er ljóst að tækifærin eru mörg í frekari uppbyggingu í Kópavogi og margt framundan hjá Markaðsstofunni.“
Markaðsstofa Kópavogs er sjálfseignarstofnun og hefur það hlutverk að efla ímynd og atvinnuþróun í Kópavogi, starfa að ferða- og markaðsmálum og stuðla þannig að því að bæta lífsgæði og glæða mannlíf og atvinnulíf í bænum. Markaðsstofan er brú á milli atvinnulífs og stjórnsýslu bæjarins og tengir saman ólíka hagsmunahópa í bænum.