Samkeppni andskotans?
Tilgangur Samkeppniseftirlitsins er fagur:
Markmið samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum. Samkeppniseftirlitinu ber að ná markmiðum samkeppnislaga með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.
Allt er þetta í þágu neytandans og þeim tilgangi að hann fái þjónustu og vöru á sem hagstæðasta verði. Þess vegna bregður manni við þegar úrskurðir Samkeppniseftirlitsins verður til þess að hækka verð.
Það gæti gerst í Kópavogi. Laugar kærðu Kópavogsbæ til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að við værum að skerða samkeppnismöguleika á líkamsræktarmarkaðinum með því að láta þáverandi Actic (sem heitir nú Gym Heilsa og hét áður Nautilus, en allan tímann á sömu kennitölu) hafa aðgang að lauginni og gera þeim kleyft að bjóða lægri verð án útboðs.
Þeir unnu málið og í samkomulagi sem Samkeppniseftirlitið gerði við bæinn var sett skilyrði um að þetta færi í útboð og við mættum ekki niðurgreiða eftir mars 2015
Útboðið fór fram og aðeins tveir buðu, Laugar/World Class og Gym Heilsa. Menn hafa reynt að mótmæla þessu og nú eru komnir undirskriftalistar í laugina þar sem þessu er mótmælt. Það var ljóst eftir að sSamkeppniseftirlitið úrskurðaði WC í hag að GH yrði að hækka verðin hverju öðru sem liði, til að hætta að skekkja samkeppnistöðu.
Því er ljóst að það verður óhjákvæmilega einhver hækkun á þessari almannaþjónustu að kröfu Samkeppniseftirlitsins. Og fari nýi aðilinn á hausinn vegna undirboðs, eða lélegrar aðsóknar vegna óhóflegs verðs er næsta víst að bæjarsjóður fær að taka upp slakann.
Á fleiri sviðum?
Gæti þetta leitt til þess að ef einhverjum dytti í hug að selja inn í sundlaug heima hjá sér þá yrði Kópavogsbær að lækka sundlaugagjöld!? Mætti t.d. nefna skóla og dagvistun.
Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG,lagði fram eftirfarandi fyrirspurn í bæjarráði Kópavogs 3.apríl:
„Upplýsingar úr útboðum vegna líkamsræktar í sundlaugum Kópavogs eru komnar til fjölmiðla án þess að hafa verið kynntar í bæjarráði eða framkvæmdaráði. Því vill undirrítaður fá svör við eftirfarandi spurningum.
1) Hverjir höfðu/hafa haft aðgang að þessum upplýsingum fram til þessa?
2) Eru fullyrðingar fjölmiðla um umtalsverðar hækkanir á líkamsræktarkortum réttar?
3) Eru slíkar hækkanir (ef réttar eru) í samræmi við þá stefnu bæjarins að halda aftur af gjaldskrárhækkunum?
4) Er það stefna núverandi meirihluta að gera bæjarbúum kleyft að stunda líkamsrækt á viðráðanlegu verði og kemur til greina að bærinn marki sér stefnu í því efni?“
Það verður fróðlegt að fá svör við þessum spurningum.
Kröftug mótmæli
Bæjarbúar í Kópavogi hljóta að mótmæla kröftuglega að fá ekki heilsubætur á viðráðanlegu verði. Bæjarfulltrúi Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram við fjárhagsáætlun tillögu um forvarna og lýðheilsustyrk fyrir eldra fólk til að gera því auðveldara að stunda líkamsrækt eða aðra heilsueflingu að eigin vali. Tillagan var um 7-10 þúsund styrkur á ári, sem er lítið eitt meira en árskort í sund kostar.
Ef bæjaryfirvöld mega ekki efla heilsu bæjarbúa án þess að Herra Gróði komi nálægt er vandlifað.
Bæjarbúar munu því fylgjast vel með framgangi þessa máls fyrir kosningar.
-Arnþór Sigurðsson, 4. sæti á lista VG og félagshyggjufólks í Kópavogi.