Heimsóknum í Menningarhús Kópavogs hefur fjölgað um 12% milli áranna 2015 og 2016. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri ársskýrslu um menningarstarf á vegum Kópavogsbæjar á síðasta ári.
Alls lögðu 178.652 gestir leið sína í Menningarhús bæjarins frá janúar til nóvember 2016 ári en fjöldinn var 159.878 árið á undan. Heimsóknartölur fyrir desember liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað og eru því ekki með í dæminu.
Langflestir heimsækja Bókasafn Kópavogs, næst flestir Salinn, svo Gerðarsafn og Náttúrufræðistofu. Sé litið á fjölgun gesta í einstökum menningarhúsum kemur í ljós að fjölgunin milli ára er í prósentum talið mest hjá Gerðarsafni eða um 53%, því næst hjá Náttúrufræðistofu, eða um 35% og þar næst hjá Bókasafni Kópavogs eða um 9%. Gestafjöldinn var aðeins minni í Salnum árið 2016 en árið á undan, en hafa ber í huga að Salurinn er fyrst og fremst útleigusalur og lýtur því öðrum lögmálum en önnur menningarhús.
Margir þættir skýra þessa miklu aukningu gesta í Menningarhús bæjarins, einn helsti er aukin áhersla á fræðslu fyrir börn og ungmenni síðustu misserin, meðal annars með skipulögðum skólaheimsóknum og fjölskyldustundum á laugardögum, þar sem í boði er ókeypis fræðsla í tónlist, myndlist, bókmenntum og vísindum. Hátt í þrjú þúsund skólabörn úr Kópavogi og nágrannasveitarfélögunum hafa sótt Menningarhúsin heim í vetur í gegnum menningarverkefni bæjarins sem heitir Menning fyrir alla.
Aukin áhersla hefur á liðnum misserum einnig verið lögð á að kynna starfsemi Menningarhúsanna betur, styrkja viðburði og sýningar, og gera innra rými og útivistarsvæði við húsin meira aðlaðandi. Nýr veitingastaður á neðri hæð Gerðarsafns, Garðskálinn, nýtur einnig mikilla vinsælda og hefur laðað til sín fjölda gesta. Reksturinn var af Menningarhúsum Kópavogs boðinn út vorið 2015 og er ljóst að starfsemin styrkir svæðið í heild.
Samtals hátt í 50 manns starfa hjá Menningarhúsum Kópavogsbæjar. Undir hatti Menningarhúsa Kópavogsbæjar eru Bókasafn Kópavogs, Salurinn, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Héraðsskjalasafn Kópavogs. Gestafjöldi í Héraðsskjalasafni er ekki talinn.