Heldur sína fyrstu einkasýningu 92 ára að aldri

Þegar komið er inn í matsal hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar blasa við falleg vatnslitamálverk sem þar eru nú til sýnis. Þau eru eftir listamanninn Stellu Guðmundsdóttur, 92 ára, sem dvelur á Sunnuhlíð, en hún byrjaði ekki að mála fyrr en hún varð 77 ára. Telja verður einstakt að listamaður hefji feril sinn svona seint á ævinni. Sjálfri finnst Stellu merkilegast að hafa loksins stigið fram og haldið sínu striki þrátt fyrir úrtölur annarra frá yngri árum.

„Ég hafði aldrei snert pensilinn áður en ég varð 77 ára. Ég átti fimm bræður sem allir voru mjög flinkir í höndunum,“ segir Stella. „Þeir gátu teiknað, málað og skorið út. Allt lék í höndunum á þeim. Mér var hins vegar alltaf sagt að ég gæti aldrei neitt, vegna þess að ég væri örvhent. Þegar ég var orðin 77 ára ræddi ég þetta við einn bróður minn af því að þetta sat í mér. Af hverju var ég sú eina í fjölskyldunni sem hafði ekki listræna hæfileika? „Farðu á kerlinganámskeið og sjáðu hvernig gengur,“ sagði hann. Og ég gerði það. Fyrst með nokkrum konum á Gjábakka sem máluðu saman. Síðan fórum við allar í Myndlistarskóla Kópavogs. Ég er sú eina sem er lifandi úr þessum fyrsta hópi. Ég held ótrauð áfram náminu í Myndlistarskóla Kópavogs.“

Rekin úr skóla fyrir að vera örvhent

„Ég er fædd árið 1923 í Vestmannaeyjum. Mér þykir líklegt að það yrði farið fram á aðkomu barnarverndarnefndar ef sambærilegt tilvik og mitt kæmi upp nú,“ segir Stella og rifjar upp að þegar hún var átta ára var hún bæði orðin fluglæs og gat skrifað mjög vel, með vinstri hendi. „Skólastjórinn í barnaskólanum vildi ekkert með mig hafa og vísaði mér úr skóla, þrátt fyrir áköf mótmæli foreldra minna. Ég var örvhent en kunni allt og var sökuð um að hafa truflandi áhrif á hin börnin. Ég fór þá í Aðventistaskólann og var lamin þar með priki þangað til ég gat nokkurn veginn skrifað með hægri hendi,“ segir Stella og það er greinilegt að minningin er henni afar sár. „Þegar ég var að alast upp voru skilaboðin frá umhverfinu til mín á einn veg: „Þú getur ekki. Þú ert örvhent.“ Þetta heyrði ég í skólanum og líka frá fjölskyldu minni. Afleiðingin varð sú að ég hætti að reyna að leggja mig fram. Ég er ennþá bitur út af þessari meðferð á mér. En ég er ekki eina dæmið um örvhent barn frá þessum árum sem fékk svona hrikalega meðferð sem hafði varanleg áhrif út í lífið. Ég þekki marga sem eru sárir út af svipuðu og því sem ég upplifði,“ segir Stella, alvarleg í bragði.

Listin í sorginni

Hún fór að vinna í fiskvinnslu hjá Einari ríka í Eyjum og fór síðan til náms uppi á landi. Í göngutúr í miðbænum rakst hún á hávaxinn mann sem ákvað, þá og þegar, að hún yrði konan hans. Þessi maður var hinn þjóðþekkti leikari, Róbert Arnfinnsson. Þau voru saman í 73 ár; stofnuðu fjölskyldu og bjuggu lengi við Hófgerði 8 í Kópavogi. Róbert féll frá, sem kunnugt er, árið 2013 og er greinilegt að Stella tekur fráfall hans nærri sér og saknar. Listin hefur hjálpað henni í sorginni og einnig ómetanleg vinátta hennar við samnemendur og kennara í Myndlistarskóla Kópavogs sem veittu stuðning og samhug.

„Róbert fór í júlí og Myndlistarskólinn átti að byrja í september. Mér fannst ég alveg ómöguleg og varla geta komist út úr húsi. Ég var alveg miður mín og treysti mér ekki. Ég sá ekki fyrir mér að geta byrjað að mála aftur. En vinir mínir og fjölskylda vissu vel að það gerði mér gott að vera innan um gefandi og skemmtilegt fólk og gáfust ekki upp á að nuða í mér. Svo ég dreif mig. Og ég gat loksins farið að hlæja aftur þegar dóttir mín, sem þá var 53 ára, hringdi í Myndlistarskólann til að grennslast fyrir um hvort ég, 90 ára, hefði ekki örugglega mætt í skólann! Hlutverk okkar höfðu svo sannarlega snúist við,“ segir Stella og hlær.

Í Myndlistarskóla Kópavogs lærði Stella að blanda litina rétt og nálgast viðfangsefni sín út frá sínum eigin forsendum og treysta á eigið innsæi. „Ég leita mikið í náttúruna, enda náttúrubarn og mikil blómakona. Þaðan sæki ég innblásturinn. Á einni mynd datt mér í hug að nota salt við litablöndunina og fékk þannig litina til að springa út og gera lággróðurinn á myndinni raunverulegri.“

Derek Mundell, kennari Stellu, segir hana hafa einstaka hæfileika og listunnendur ættu að skoða og læra af. Það sé mjög sérstakt að hefja ferilinn svona seint á æviskeiðinu og ná þvílíkum tökum á vatnslitunum sem Stella hafi náð. „Hún hefur eitthvað sérstakt lag á að draga fram fallega birtu í myndum sínum og pælir virkilega í allri litablöndum til að ljá mótiví sínu raunverulegan, náttúrulegan blæ,“ segir Derek, hreykinn af nemenda sínum.

Stærsta viðurkenningin

Stella rifjar upp stærstu viðurkenninguna sem hún hefur fengið. „Ég fór í heimsókn til bróður míns, þessa sem stakk upp á að ég ætti að fara á „kerlinganámskeið.“ Hann lá þá á sjúkrahúsi og ég hengdi allar myndirnar mínar upp á vegg í stofunni hans. Þetta gerði ég til að sýna honum hvað ég gat gert. Hann spurði mig: „Af hverju byrjaðir þú ekki á þessu miklu fyrr?“ „Nú, þú sagðir mér ekki fyrr að ég gæti gert eitthvað,“ svaraði ég honum að bragði. En þessi atburður var mér mikils virði.“

Verk Stellu eru þegar farin að seljast og hefur eitt þeirra meira að segja verið selt til Vancouver í Kanada. „Það er nú viðurkenning út af fyrir sig að kennarinn minn meti það svo að ég sé nógu góð til að halda sýningu. Núna er ég búin að sýna verkin mín og ég er búin að sanna að ég bæði þori, get og vil þó að ég sé örvhent. En eftir að myndin seldist til Kanada hafa dætur mínar farið að viðurkenna sköpun mína. Ég var áður bara mamma þeirra að dunda mér við eitthvað en núna vilja allir Lilju kveðið hafa,“ segir Stella og brosir.

Hvaða skilaboð ertu með til fólks sem er að lesa þetta og langar að láta drauma sína rætast?

„Fyrst og fremst að hika ekki við að læra eitthvað sem það hefur áhuga á. Það er aldrei of seint. Fólk á ekki að loka sig inni þegar aldurinn færist yfir. Það hjálpar engum því það gerist ekkert fyrr en maður fer sjálfur af stað og skapar. Það er um að gera að læra eitthvað, að vera innan um fólk og að lifa lífinu lifandi.“

Áhugasamir nemendur hjá Myndlistaskóla Kópavogs.
Helene Marie Baatz
Helene Marie Baatz.
Ásgerður  Halldórsdóttir
Ásgerður Halldórsdóttir.
Margrét Dannheim
Margrét Dannheim.
Derek Mundell, kennari, Friðrik Friðriksson og Stella Guðmundsdóttir.
Derek Mundell, kennari, Friðrik Friðriksson og Stella Guðmundsdóttir.
Myndir Stellu Guðmundsdóttur eru nú til sýnis í matsal Sunnuhlíðar og hafa vakið mikla athygli.

DSC00347

DSC00334

DSC00327

Umræðan

Fleiri fréttir

Gnitaheiði er gata ársins

Bæjarstjórn Kópavogs velur götu ársins og er Gnitaheiði 30. gatan í Kópavogi til þess hljóta nafnbótina. Íbúar í götunni komu saman af tilefninu og Orri Hlöðversson, formaður bæjarráðs í Kópavogi

Flautukórinn í frægðarför

„Við komum heim með fullt af gulli, silfri og bronsi rétt eins og á Ólympíuleikunum,” segir kampakát Pemela De Sensi, flautukennara Tónlistarskólans í Kópavogi. Flautukór kórsins lagði nýverið Sikiley á

Líf og fjör á Hamraborgarhátíð

Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og sýningarstjóri Hamraborgarhátíðarinnar í ár. Agnes útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2015 en stundar nú nám í sýningastjórnun við Háskóla Íslands. Agnes sýndi

Gunnar Helgason.

Bókasafn Kópavogs í haust

Haustið ber með sér rútínu, kertaljós og appelsínurauða tóna, en á Bókasafni Kópavogs er dagskráin að fara í gang með vinsælum viðburðum fyrri ára í bland við nýja og spennandi

Gamlar fréttir úr sarpinum

VEFBORDI_310X400
Asdis
Skólaþing
Meistarinn
Skólahljómsveit Kópavogs
Susann og Richard Smith
arnargr-104×120
WP_20150326_10_54_43_Raw
boda