Hið fjöruga og fjölbreytta 2022

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjafulltrúi Pírata í Kópavogi

Nú er þetta langa og skrýtna ár senn á enda og tímabært að líta yfir farinn veg. Það virðist einhvern veginn óralangt síðan við bjuggum við ströng sóttvarnarfyrirmæli með tíu manna samkomutakmörkunum en samt var það nú í upphafi þessa árs.

Með vorinu fór svo flest að færast í fyrra horf og við sveitarstjórnarfulltrúar fórum á flug í kosningabaráttu, sem er alltaf blómlegur tími í starfi stjórnmálaflokka. Það skapast svo mikil stemning, nýtt fólk kemur inn í flokksstarfið, eldri félagar mæta og ganga í hin ýmsu störf sem þarf að manna. Það er einhver ólýsanleg orka og gleði sem einkennir þennan tíma. Nándin milli stjórnmálanna og bæjarbúa er aldrei meiri og við leggjum línurnar í áherslumálum okkar fyrir næstu fjögur árin með aðkomu allra sem hafa áhuga á að taka þátt. Við Píratar í Kópavogi jukum fylgi okkar um 40% frá kosningunum 2018. Ég er mjög stolt af þeim árangri, okkar góða hópi fólks, og þakklát fyrir traustið.

Við Píratar erum hér vegna þess að við viljum stuðla að auknu lýðræði og að því að stjórnvöld taki upplýstar ákvarðanir. Við viljum meira samráð, við viljum heyra skoðanir og álit fólks og hugsa til framtíðar. Ekki bara eitt kjörtímabil fram í tímann, heldur áratugi.

Beygt af góðri braut

Því miður sáum við afturför í stefnumiðuðum vinnubrögðum í fjárhagsáætlunarvinnunni í haust. Eftir sjö ára hefð fyrir því að vinna áætlunina í þverpólitískri sátt var útséð með áframhald á því fyrirkomulagi, í það minnsta í þetta skiptið.

Á síðasta kjörtímabili lögðum við upp í víðtæka stefnumótun allra sviða, með aðkomu bæði starfsfólks og kjörinna fulltrúa, og í framhaldinu voru unnar aðgerðaráætlanir með mælanlegum markmiðum. Þessi hugmyndafræði felur í sér að fylgjast með þróun mála, meta árangur, og taka svo tillit til útkomunnar í fjárhagsáætlun næsta árs hverju sinni: Gagnadrifin ákvarðanataka.

Í stað þess að halda áfram á þeirri góðu vegferð voru nú tillögur að nýjum aðgerðum ekki rökstuddar með vísan í mat á árangri áætlana síðasta árs heldur hafði málefnasamningur meirihlutaflokkanna augljóslega verið lagður til grundvallar, og það áður en minnihlutaflokkarnir fengu sæti við borðið.

Vonsvikin en bjartsýn

Eftir heila viku af fundum þar sem við gerðum ítrekað athugasemdir við fyrirkomulagið, en mættum litlum skilningi, sögðu allir fulltrúar minnihlutans sig því frá þessu sýndarsamstarfi.

Það er sorglegt að sjá fjara undan þeirri hugsun að taka upplýstar ákvarðanir byggðar á rökum – hugmyndinni um að horfa til lengri tíma en fjögurra ára í senn. Ég er sannfærð um að sú aðferðarfræði skili Kópavogsbúum alltaf betri niðurstöðu.

Ég vel hins vegar að fara bjartsýn inn i nýja árið með hækkandi sól og von um betri vinnubrögð. Ég hlakka til að halda áfram að vinna í þágu íbúa Kópavogsbæjar á nýja árinu. Við munum halda áfram að fara vel með traustið sem okkur var falið og gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera bæinn okkar að réttlátara, opnara og heiðarlegra samfélagi. Mínar bestu óskir um að þið megið eiga notalegar stundir með ykkar nánustu yfir hátíðirnar!

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn