Það hlýtur að vera sérstakt að rölta í bókaverslun og fletta þar erlendu tímariti eða bók og sjá þar óvænt mynd eftir sjálfan sig. Eða opna Facebook og sjá eigin myndir í fréttaveitum CNN eða National Geographic. En þetta er nánast daglegur viðburður hjá Kópavogsbúanum Ragnari Th. Sigurðssyni, ljósmyndara. Hann hefur búið á Kársnesbraut í 32 ár ásamt konu sinni, Ásdísi Gissurardóttur og börnum; Hilmari Þórarni, Elíasi Ragnari og Ragnheiði Mekkín. Ungur að árum fékk hann ljósmyndabakteríuna og óslökkvandi þrá að fanga umhverfi sitt, mannlíf og náttúru svo eftir yrði tekið. Frá því hann var tólf ára hafa augu hans vart vikið frá linsunni en óhætt er að fullyrða að Ragnar er einn umsvifamesti ljósmyndari landsins. Hann hefur tekið þátt í útgáfu yfir 30 bóka hér á landi; myndir hans hafa birst í tugum þúsunda bóka og tímarita erlendis og þá hefur hann skipulagt ljósmyndanámskeið í Kanada, Síberíu, Grænlandi og víðar. Svo hefur hann líka myndað íshokkíleik í Finnlandi og verið úti í 50 stiga gaddi um hánótt í Lapplandi þegar hann var að mynda vetrarbrautina, norðurljós og stjörnur, svo fátt eitt sé nefnt. Í ljósmyndagagnabanka Ragnars á netinu má finna um 130 þúsund myndir í prentupplausn. Sjálfur segist hann hafa tekið yfir 2 milljónir mynda á ferlinum sem taka gríðarlegt geymslupláss. Kópavogsblaðið tók hús á Ragnari og fékk að fræðast um líf hans og starfið sem hann hefur brennandi ástríðu fyrir.
„Í grunninn er ég austurbæingur úr Reykjavík, alinn upp í Safamýri og gekk í Álftamýrarskóla. Konan mín, Ásdís, er hins vegar héðan úr Kópavogi, nánar tiltekið frá sjálfri Mánabrautinni, og dró mig hingað í Kópavog. Það kom aldrei neitt annað til greina en að setjast hér að á Kársnesi og á sjálfri Kársnesbraut. Hér er afar gott að vera þótt „myndrænir“ staðir í Kópavogi mættu vera fleiri,“ segir Ragnar og skellir upp úr. Bræður Ragnars heita Hallgrímur Sigurðsson, sem starfar sem rafmagnsverkfræðingur og Sigurður Árni, sem er sagnfræðingur. Foreldrar Ragnars eru þau Anna Ragnheiður Thorarensen og Sigurður Hallgrímsson en hann lést árið 2015.
Hvenær kviknaði ljósmyndaáhuginn?
„Ætli ég hafi ekki verið 10 eða 12 ára í Álftamýrarskóla. Þar var boðið upp á ljósmyndanámskeið sem Karl Jeppesen stýrði, en við erum enn góðir vinir í dag. Þar kviknaði áhuginn og ég lærði mjög mikið. Kjallarinn hjá pabba og mömmu í Safamýri var breytt í framköllunarkompu og ég tók ógrynni af myndum. En ég gaf þær allar, vinum mínum og ættingjum svo ég á fáar eða engar frá þessum tíma. Mér hefur alltaf þótt gaman að gefa myndir mínar og gleðja. En þarna varð til viðurnefnið Raggi foto, sem hefur stundum loðað við mig,“ segir Ragnar og hlær. Hann sá snemma að hægt var að hafa atvinnu af ljósmyndun. „Ég var ekki nema 12 ára gamall þegar ég seldi fyrstu myndirnar mínar á dagblaðið Vísi, sem þá var gefið út. Það var alveg meiriháttar. Mynd sem ég tók kom á forsíðu blaðsins með nafninu mínu undir. Þegar Dagblaðið var stofnað árið 1975 var ég ráðinn, aðeins 16 ára að aldri, sem ljósmyndari á blaðinu. Það var mikill og góður skóli sem ég naut í tíu ár, til ársins 1985. Þá fór ég til Svíþjóðar til að nema auglýsingaljósmyndun sem nýttist mér einnig vel. Þegar heim var komið setti ég upp eigið stúdíó og skaut þar auglýsingamyndir í nokkur ár. Nokkrum árum síðar leitaði hugurinn í önnur verkefni.
Hvað tók þá við?
„Smám saman fékk ég leið á stúdíóvinnu og fór að ókyrrast. Ég hef alltaf þurft á mikilli tilbreytingu að halda. Í kringum árið 1990 áttaði ég mig á því að framtíðin lægi í myndabönkum; að vera með eigin ljósmyndabanka og selja afnotarétt af myndum. Ég byrjaði strax að undirbúa það og réði mér „Markaðsstjóra til leigu“ hjá Útflutningsráði til að kynna mig og mín störf erlendis. Árið 1993 flaug ég til London og gerði samning við fyrirtækið Tony Stone, forvera fyrirtækisins Getty Images, sem er í dag einn stærsti sölu- og dreifingaraðili ljósmynda í heimi. Það samstarf hefur gengið mjög vel og ég er nánast eingöngu að sinna þessu í dag. Ég er einnig samningsbundinn öðrum stórfyrirtækjum sem sjá um sölu og dreifingu á ljósmyndum. Tekjur mínar koma því að meirihluta til erlendis frá. Ég starfa náið með markaðsstjóra og það sem kallast „creative director“ hjá fyrirtækjum eins og Getty Images en ég nýt þó algjörs frelsis í að ákveða það sem mig langar að mynda á hverjum degi.“ Markaðurinn er harður og samkeppnin grimm enda segir Ragnar að hvorki fleiri né færri en þúsund milljarðar mynda séu teknar á hverju ári. „Að taka myndir í dag sem seljast er erfitt en það er hægt. Maður þarf að hafa frjóa hugsun, vera framarlega í beitingu nýjustu tækni og hafa nef fyrir því hvað markaðurinn vill. Þetta hefur framfleytt mér og fjölskyldu minni í öll þessi ár en ég þarf alltaf að vera á tánum og sjá möguleika á því sem er áhugavert og sérstakt sem aðrir geta nýtt sér. Varðandi nýjustu tækni í ljósmyndageiranum þá hef ég það sem reglu að um leið og farið er að kenna hana, þá er hún orðin úreld.“
Hvað knýr þig áfram, hvaðan sækir þú eldmóð og innblástur?
„Því er ekki auðsvarað en ég er alltaf að horfa í kringum mig og fá stöðugt nýjar hugmyndir um myndefni og sjónarhorn. Drónar veita ný tækifæri og þeir eru alltaf að verða betri með betri myndavélum. Forvitni er alltaf að reka mig áfram og ég á auðvelt með að læra nýjar aðferðir og tileinka mér nýjustu tölvutækni. Ég er samt mjög gagnrýninn á það því það má alls ekki týna sér í tækninni. Fyrst og fremst snýst þetta um sköpunargleði og að viðhalda neistanum. Það er eitthvað sem maður þjálfar upp og vinnur vel í yfir árin. Ég er alltaf að hugsa og pæla og má varla fara í bíó án þess að tapa söguþræðinum því ég er alltaf að hugsa um lýsingar á skotum og mismunandi sjónarhorn.“
Hvað þarf góður ljósmyndari að hafa til brunns að bera?
„Fyrst og fremst að hafa forvitni og eldmóð til þess að gera betur. Það þarf endalausan eldmóð til að gera betur í dag en í gær og aldrei að gefa eftir í kröfum um gæði því slíkt er aldrei fyrirgefið. Það á sérstaklega við um alþjóðlegan markað þar sem myndir geta verið notaðar í stór auglýsingaskilti, bæklinga, árskýrslur stórfyrirtækja eða á vefsíður vinsælla fréttasíðna, svo dæmi séu tekin. Góður ljósmyndari þarf að sjálfsögðu að hafa „gott auga“ fyrir myndefninu og að geta boðið myndir sem grípa auga auglýsingahönnuða erlendis. Það þarf að bjóða þeim eitthvað óvænt sem sker sig úr fjöldanum.“
Ljósmyndasafn RTH / Artic Images er að finna að Kársnesbraut 63.
Sjá nánar: arctic-images.com.
Myndir eftir Ragnar prýða sýningu í Perlunni sem sýna jökla Íslands og náttúru.