Ranka og Zdravko Studic halda í vonina að drengurinn þeirra hringi
Kópavogsmegin í Fossvogsdalnum, búa hjón á fimmtugsaldri í snyrtilegri íbúð. Hann vinnur í sundlaug á höfuðborgarsvæðinu en sökum veikinda hefur hún ekki verið á vinnumarkaði síðustu ár. Ranka Inga og Zdravko Studic hafa búð sér til fallegt heimili þar sem handverk húsmóðurinnar fær að njóta sín. Þau hafa búið á Íslandi í 15 ár og líta á landið sem heimaland sitt. Þau hafa aðlagast lífinu á Íslandi vel og tala góða íslensku.
En þessi vingjarnlegu og gestrisnu hjón eiga sér sögu sem litast af stríði, fátækt, veikindum og ólýsanlegum harmi. Saga þeirra er skráð af Elínu Hirst í bókinni Barnið þitt er á lífi sem bókaútgáfan Útkall gefur út.
Ranka og Zdravko bjuggu í Bolungavík fyrstu tvö árin eftir komuna til Íslands en ákváðu að flytja til Reykjavíkur árið 2000. Ástæðan var ekki síst sú að þau vildu vera þar sem fjölbreyttari atvinna væri í boði og læknisþjónusta góð. Þeim langaði til að reyna að eignast annað barn. Fyrst bjuggu þau í leiguhúsnæði Reykjavík, keyptu svo íbúð þar og eiga einnig hús í Pale sem er í nágrenni Sarajevo. Fyrir nokkrum árum kaupa þau svo íbúðina sína í Kjarrhólunum.
Þau hafa verið í miklum samskiptum við fjölmiðlamenn víða að en saga Rönku hefur vakið mikla athygli í heimalandi þeirra og í Sviss.
„Það er mikið stress í gangi hjá okkur, og bókin hefur vakið mikla athygli“ segja þau hjón sem eru í samskiptum við fólk víða um heiminn í kjölfar útkomu hennar.
Þau hafa hringt ófá símtöl til að fá upplýsingar um drenginn sinn en oftast er komið að lokuðum dyrum. Mörg þúsund manns í Serbíu sem hafa misst barnið sitt á svipaðan hátt hafa stofnað samtök til að hafa uppá börnunum sínum. Sumir hafa fundið barnið sitt, aðrir eru enn að leita.
„Það er ekkert hægt að gera. Ríkið segir bara: „Þetta var annað land, gamla Júgóslavía, nú er þetta Serbía, við getum ekkert gert. Það eru engir pappírar til frá sjúkrahúsinu heldur“ segja þau Zdravko og Ranka en þau halda í vonina um að drengurinn þeirra finnist.
„Við vonumst til að hann hringi eða hafi samband á einhvern hátt. Kannski veit hann af þessu, kannski ekki.“
„Það vinna margir saman í þessari mafíu sem rænir börnum“ segir Zdravko, „Læknar, hjúkrunarfólk, þeir sem þrífa, allir vissu af þessu og tóku þátt. Við vonumst til að finna hann einn daginn og hann hringi í okkur “.
Ranka segir ástæðuna fyrir bókaskrifunum vera þá fyrst og fremst þá að heiðra minningu Ingu Vagnsdóttur sem var velgjörðamaður hennar og fjölskyldu hennar.
„ Inga var með svo stórt hjarta og ég vil að heimurinn viti af því hvað hún var góð við annað fólk. Fjölskylda hennar er fjölskylda mín“ segir Ranka sem er með mynd af Ingu á borði í stofunni sinni. Hún segir að fjölskylda Ingu hafi takið afar vel á móti sér. „Ég talaði ekki ensku þegar ég kom til Íslands. Samt skildum við Birna, mamma Ingu ,hvora aðra án orða. Hún tók á móti mér eins og ég væri barnið hennar. Ef þessi saga mín getur hjálpað einhverjum þá er ég ánægð. Í henni segi ég allt og allt sem kemur fram er satt“
Hjónin rifja upp tímann í Serbíu, þegar þau voru allslausir flóttamenn frá Bosníu í fjögur ár og höfðu fátt milli handanna. Þau bjuggu í lítilli kytru sem var mikill viðsnúningur frá íbúð þeirra í Sarajevo. Þau urðu að láta sér nægja mat sem aðrir litu ekki við og eigur þeirra komust fyrir í einum litlum pappakassa. Ranka segir að það hafi verið kraftaverk að þau komust að lokum til Íslands.
„ Við vorum búin að sækja um að fá að fara til Kanada og Ástralíu en var hafnað. Þeir sem komust þangað var fólk í blönduðu hjónabandi, td. Króatar og Serbar. Við erum bæði Serbar og ég vildi ekki segja ósatt til að komast að. Samt veit ég að fólk gerði það en ekki við.“
Þegar Ranka birtist á sjónvarpsskjám á Íslandi bjó hún við sáran kost í Belgrad. Þar bað hún um aðstoð við að finna vinnu handa þeim hjónum.
Það var erfitt að vera flóttamaður í Serbíu, þar eru nokkur hundrað þúsund flóttamenn úr Bosníu og Króatíu. Þegar þeim stóð til boða að fara til Íslands, eftir sjónvarpsviðtalið afdrifaríka, þá hikaði hún ekki.
„ Ég átti ekkert eftir til að missa. Ég átti ekki neitt og það var ekkert sem beið okkar í Serbíu. Ég tók áhættu með að fara en það eina sem ég gat misst var lífið. Ég tók áhættuna til að geta bjargað fjölskyldunni minni. Það hringdi síminn hjá nágrannakonu minni og mér var boðið að koma til Íslands. Ég fór“ segir Ranka sem kom til landsins í janúar 1998.
Hjónin eru sátt við að búa í Kópavogi. Íslendingar séu almennt mjög vingjarnlegir og vilji allt fyrir þau gera. Þegar þau reka erindi sín þá gefi afgreiðslufólk sér góðan tíma til að aðstoða þau ef þau þurfa frekara úrskýringar.
Ranka hefur ekki getað stundað vinnu síðustu ár. Hún þjáist af áfallastreituröskun vegna þeirra áfalla sem hún varð fyrir í stríðinu.Hún fær aðstoð frá sálfræðingum og læknum hér á landi sem vilja allt fyrir hana gera. En þekking íslenskra sérfræðinga á afleiðingum stríðs er ekki mikil og því fær Ranka aðstoð bosnískra sálfræðinga þegar hún dvelur þar í landi .
En eins og hún segir þá er gott að geta tjáð hugsanir sínar á móðurmáli sínu við sálfræðinga sem þekka afleiðingar stríðs. Þótt þeir íslensku séu allir af vilja gerðir að aðstoða hana og hafa gert margt gott þá hafa þeir ekki sömu þekkingu og þeir í Kosovó.
Saga Rönku og Zdravko í örstuttu máli
Ranka og Zdravko eru fædd og uppalin í Sarajevo, höfuðborg Bosníu. Þau eru bæði háskólamenntuð, hún er landmælingafræðingur og hann skógfræðingur. Þau voru vel stæð og voru umvafin ástríkri og samheldinni fjölskyldu. Eitt skyggði á hamingju þeirra en það var barnleysið. Þau höfðu átt í erfiðleikum með að eignast barn en ástæðan var fæðingargalli í legi Rönku.
Þegar stríð hófst í Bosníu, þann 6. apríl 1992, lá Ranka á meðgöngudeild hátæknisjúkrahúss í Sarajevo. Hún var komin 5 mánuði á leið og þurfti að vera rúmföst það sem eftir var meðgöngunnar til þess að auka líkurnar á því að henni tækist að ganga fulla meðgöngu með barnið sitt langþráða.
Allt gerbreyttist með stríðinu, vatnið var tekið af og hiti og rafmagn sömuleiðis. Fjöldamorð voru framin í borginni og múslimar og serbar urðu skyndilega andstæðar fylkingar. Ranka var flutt til móðurfjölskyldu sinnar í Serbíu og fæddi barn á sjúkrahúsinu í Jagodínu þann 7. júlí 1992 klukkan 18. Barnið hefur hún aldrei séð og var sagt að það hefði látist skömmu eftir fæðingu.
Eftir viðtal sem íslenskir dagskrárgerðarmenn tóku við Rönku fyrir Kastljós þá vænkaðist hagur þeirra. Ranka fær boð um að flytja til Bolungavíkur frá Ingibjörgu Vagnsdóttur sem útvegar henni atvinnu og húsaskjól eftir að hafa séð viðtal við hana í Kastljósi. Fljótlega fylgdu systkini hennar og maki á eftir til Íslands.
Fyrir nokkrum árum fékk Ranka upphringingu frá Serbíu ( að talið er) þar sem henni var tilkynnt að barnið hennar væri á lífi og byggi í Sviss. Barnamafía í Serbíu hafi stolið barninu á fæðingardeildinni og selt það til auðugra hjóna.
Elín Hirst: „Við bæði hlógum og grétum“
„Við Ranka náðum vel saman alveg frá fyrstu stund við ritun bókarinnar. Við vorum að ræða mjög alvarleg, viðkvæm og persónuleg mál sem var mjög erfitt fyrir Rönku tilfinningalega. Við bæði grétum og hlógum” segir Elín Hirst sem skrásetti sögu Rönku.
„Við erum báðar að ég tel ánægðar með bókina. Ég vona þad auðvitað innilega ad sonur þeirra hjóna heyri til okkar og hafi samband við foreldra sína. Bókin hefur fengið mikla umfjöllun erlendis; í Sviss þar sem talið er að drengurinn búi, í Serbíu, Bosníu og Króatíska sjónvarpið tók malið fyrir,“ segir Elín Hirst höfundur bókarinnar í samtali við Kópavogsblaðið.
-Hólmfríður Þórisdóttir