HK-ingar komust í kvöld á toppinn í 2. deild karla með því að vinna Reynismenn 4:1 á N1-vellinum í Sandgerði, í 15. umferð deildarinnar. Guðmundur Atli Steinþórsson og Ásgeir Marteinsson skoruðu sín tvö mörkin hvor.
HK er þá komið með 30 stig í efsta sætinu en KV er með 28 stig og mætir Hetti á laugardaginn. Afturelding vann ÍR 2:1 í kvöld og er líka með 28 stig.
Reynismenn náðu forystunni strax á 7. mínútu og staðan var 1:0 í hálfleik. Í seinni hálfleik voru HK-ingar ekki lengi að svara hálfleiksræðu Gunnlaugs þjálfara því strax á annarri mínútu hálfleiksins jafnaði Guðmundur Atli, 1:1.
HK varð fyrir áfalli nokkrum mínútum síðar þegar Tryggvi Guðmundsson fékk slæmt högg í andlitið í árekstri við Reynismann. Hann þurfti að fara af velli og fór á sjúkrahúsið í Keflavík til aðhlynningar, og ekki var talið ólíklegt að hann væri nefbrotinn.
HK-ingar spiluðu af krafti í seinni hálfleiknum en staðan var jöfn allt þar til sex mínútur voru eftir. Þá skoraði Guðmundur Atli sitt annað mark, 2:1. Ásgeir Marteinsson, sem kom inná sem varamaður í seinni hálfleiknum, gerði síðan út um leikinn því hann skoraði, 3:1, þremur mínútum síðar og aftur í uppbótartímanum, 4:1.
Gunnlaugur Jónsson gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum við Hamar í síðustu viku. Atli Valsson og Hörður Magnússon komu inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir Aron Lloyd Green og Ásgeir Marteinsson.
Liðið var þannig skipað:
Beitir Ólafsson
Stefán Eggertsson
Davíð Magnússon
Bogi Rafn Einarsson
Leifur Andri Leifsson
Ólafur V. Júlíusson
Tryggvi Guðmundsson (Ásgeir Marteinsson 54.)
Atli Valsson
Birgir Magnússon
Guðmundur Atli Steinþórsson
Hörður Magnússon (Gunnar Páll Pálsson 76.)
Varamenn:
Alexander Lúðvígsson
Kristján Atli Marteinsson
Sverrir Þór Garðarsson
Ágúst Ottó Pálmason
-www.hk.is