HK tryggði sér sæti í 1. deild karla á nýjan leik eftir tveggja ára fjarveru.

HK vann öruggan sigur á Aftureldingu í dag og er nú aftur komið upp í 1. deild knattspyrnunnar.
HK vann öruggan sigur á Aftureldingu í dag og er nú aftur komið upp í 1. deild knattspyrnunnar. Mynd: www.hk.is

HK-vefurinn greindi rétt í þessu frá því að HK er aftur komið í 1. deild knattspyrnunnar!  Hér að neðan er frásögn frá www.hk.is.

HK vann öruggan sigur á Aftureldingu, 4:1, í næstsíðustu umferð deildarinnar í Fagralundi í dag og tryggði sér þarmeð sæti í 1. deild á ný.  Fyrir lokaumferðina er HK með 40 stig, KV 39, Grótta 37, Afturelding 36 og ÍR 36 en þar sem KV og Grótta eiga eftir að mætast geta þau ekki bæði komist uppfyrir HK.

Þar með er líka ljóst að Afturelding og ÍR eru úr leik og viðureign KV og Gróttu er hreinn úrslitaleikur um hvort liðið fylgir HK í 1. deildina.

HK getur tryggt sér meistaratitil 2. deildar með því að vinna Hött á Egilsstöðum næsta laugardag. HK yrði líka meistari, hvernig sem sá leikur færi, ef KV tækist ekki að vinna Gróttu.

Alexander Davorsson kom Aftureldingu yfir strax á 4. mínútu. Tryggvi Guðmundsson jafnaði fyrir HK á 17. mínútu og Guðmundur Atli Steinþórsson skoraði, 2:1, á 30. mínútu. Ásgeir Marteinsson kom HK í þægilega stöðu, 3:1, á 72. mínútu og Ólafur V. Júlíusson innsiglaði sigurinn í uppbótartíma leiksins.

Strax í byrjun var ljóst hve mikið var í húfi, 22 óstyrkir leikmenn inni á vellinum og spenna í brekkunni þar sem stuðningsmenn beggja liða voru fjölmennir. Mosfellingar virtust höndla þessa pressu betur í byrjun því strax á 4. mínútu komust þeir yfir þegar Alexander skoraði af stuttu færi. HK-ingar hikuðu þegar kallað var eftir vítaspyrnu, komu boltanum ekki í burtu og í netinu lá hann. Óskabyrjun þeirra rauðklæddu og stemning þeirra megin í brekkunni, 0:1.

BANG OG MARK

En HK-ingar jöfnuðu sig fljótt og voru tiltölulega fljótir að koma sér inní leikinn á ný. Á 17. mínútu tók Sverrir Þór Garðarsson horn frá hægri og eftir 2-3 skalla inni í teignum var það gamla brýnið frá Vestmannaeyjum,Tryggvi Guðmundsson, sem var á réttum stað. Hann er þekktur fyrir sinn vinstri fót en nú sveiflaði hann þeim hægri – bang og mark, eins og Bjarni Fel. myndi segja! Tók tuðruna á lofti utarlega í vítateignum og hún söng uppi hægra horninu, 1:1. Tryggvi hefur skorað ljótari mörk en þetta á ferlinum!

Heldur lyftist brúnin á HK-ingum utan vallar við þetta og inni á vellinum héldu þeir áfram af krafti. Þegar hálftími var liðinn, nákvæmlega samkvæmt tímamælingu Magga (sem á hálft liðið), átti Hörður sonur hans snilldar sendingu í gegnum vörn Mosfellinga. Guðmundur Atli slapp inn í vítateiginn hægra megin, var í þröngu færi, en afgreiddi boltann á fagmannlegan hátt í hornið fjær, 2:1.

Þannig stóð í hálfleik og það var þröng á þingi í kaffinu í Fagralundi.

Í seinni hálfleiknum jókst baráttan enn. Afturelding náði góðum sóknarþunga á köflum en HK-vörnin gaf fá færi á sér og Beitir Ólafsson var öryggið uppmálað í markinu fyrir aftan. HK fékk síðan tvö upplögð færi til að skora þriðja markið en vantaði herslumuninn.

SVONA EIGA VARAMENN AÐ VERA

Í kringum 70. mínútu leiksins fór einhvern veginn allt að gerast. Fyrst fór Birgir Magnússon af velli og Ásgeir Marteinsson kom inná. Afturelding fór í sókn, dauðafæri, en Beitir varði á stórglæsilegan hátt frá ritstjóra fótbolta.net sem virtist ekki geta annað en jafnað metin.

Boltinn fram völlinn, Ásgeir fékk hann í fyrsta sinn við vinstra vítateigshornið, greinilega banhungraður í að spila, lék á varnarmann, svo á annan – var þá kominn fyrir miðja vítateigslínuna. Þá gerði piltur sér lítið fyrir og hamraði boltanum í hægra hornið! Þvílík innkoma – staðan 3:1 og HK komið hálfa leiðina upp í 1. deild!

SÁ GAMLI HVÍLDUR OG BEITIR TÍMAMÆLDUR

Og þarna var orðið óhætt að gefa gamla manninum frá Vestmannaeyjum frí. Tryggvi var búinn að vera á útopnu frá byrjun leiks – magnað úthald hjá 39 ára gömlum leikmanni, sem var búinn að vera fyrsti maður í sókn og fyrstur til að bakka og verjast allar 70+ mínúturnar sem hann spilaði. Liðið var yngt upp með því að skella Óla Júl inná í staðinn. Þeir Tryggvi eru með sömu klippingu og breytingin því sáralítil.

Enn voru þó 20 mínútur til stefnu og stuðningsmenn Aftureldingar tímamældu Beiti í hvert skipti sem hann fékk boltann í hendurnar. Hann fipaðist bara einu sinni, hikaði aðeins  við að taka útspark þegar Logi vallarþulur tilkynnti á sinn fagmannlega hátt að markvörðurinn og fyrirliðinn væri maður leiksins.

HVER ANNAR EN ÓLI?

En sigrinum var ekki ógnað – Afturelding var ekki sérstaklega nálægt því að minnka muninn þrátt fyrir dálitla pressu, en HK hafði tíma fyrir eina flotta sókn enn. Boltinn dansaði fram og aftur við mark Mosfellinga en svo fékk Ólafur V. Júlíusson hann í miðjum vítateignum, og skoraði með hörkuskoti. Það var vel við hæfi að markahæsti leikmaðurinn í sögu HK ræki endahnútinn á þetta – Óli og félagar dönsuðu stríðsdans á vellinum. Þetta var í höfn. Köflóttu tímabili að ljúka með farsælum endi – handritið var skrifað nákvæmlega svona. Í Fagralundi – á heimavelli, með frábærum sigri gegn góðu liði Aftureldingar.

Gunnlaugur þjálfari – leikmenn HK og allir aðstandendur liðsins: Innilega til hamingju. Þið eruð búnir að koma félaginu aftur þangað sem það á heima! Nú er að fylgja því eftir og ná í bikarinn austur um næstu helgi!

Bogi Rafn Einarsson var í banni í dag en Atli Valsson var laus úr banni. Atli og Davíð Magnússon komu í stað Boga og Arons Lloyd Green í byrjunarliðinu. Þannig var það skipað:

Mark:
Beitir Ólafsson fyrirliði
Vörn:
Stefán Eggertsson (Aron Lloyd Green 84.)
Davíð Magnússon
Leifur Andri Leifsson
Alexander Lúðvígsson
Miðja:
Sverrir Þór Garðarsson
Tryggvi Guðmundsson (Ólafur V. Júlíusson 73.)
Atli Valsson
Sókn:
Hörður Magnússon
Guðmundur Atli Steinþórsson
Birgir Magnússon (Ásgeir Marteinsson 71.)
Varamenn:
Kristófer Ernir Geirdal
Birgir Ólafur Helgason
Finnbogi Llorens
Gunnar Páll Pálsson

Meiðsli/fjarverandi: Ágúst Ottó Pálmason,  Bogi Rafn Einarsson (leikbann), Brynjar Víðisson (meiddur), Kristján Atli Marteinsson, Sölvi Víðisson.

www.hk.is

Umræðan

Fleiri fréttir

Flautukórinn í frægðarför

„Við komum heim með fullt af gulli, silfri og bronsi rétt eins og á Ólympíuleikunum,” segir kampakát Pemela De Sensi, flautukennara Tónlistarskólans í Kópavogi. Flautukór kórsins lagði nýverið Sikiley á

Líf og fjör á Hamraborgarhátíð

Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og sýningarstjóri Hamraborgarhátíðarinnar í ár. Agnes útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2015 en stundar nú nám í sýningastjórnun við Háskóla Íslands. Agnes sýndi

Gunnar Helgason.

Bókasafn Kópavogs í haust

Haustið ber með sér rútínu, kertaljós og appelsínurauða tóna, en á Bókasafni Kópavogs er dagskráin að fara í gang með vinsælum viðburðum fyrri ára í bland við nýja og spennandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Vindur í eigu þjóðar

Á flokksráðsfundi okkar Vinstri grænna sem haldinn var í Reykjanesbæ um liðna helgi var ítrekað mikilvægi þess að mörkuð verði stefna um nýtingu vinds til orkuöflunar á Íslandi. Við viljum

Gamlar fréttir úr sarpinum

DSC_3545 (46)
Kopavogskirkja
Bjorn Thoroddsen
Bláu tunnurnar
Torgin
Fræðsluganga
samkomulag
Sigurbjorg-1
Kristinn Rúnar Kristinsson.