Glæsilegur árangur allra liða 5. flokks karla

Frá vef HK:
Um helgina lauk úrslitakeppni íslandsmóti 5. flokks karla. 5. flokkur HK var á meðal fjögurra efstu liða í A, B, C og D liðum.
D- liðið vann undanúrslitaleik við Víking og lék við ÍA í úrslitum. Þeir voru 3-0 undir í hálfleik en komu sterkir til baka í seinni hálfleik. Því miður dugði það ekki til og tapaðist leikurinn 4-3.
C- liðið tapaði fyrir Blikum í úrslitariðli og endaði því í 3-4. sæti. Þess má geta að þetta var fyrsti tapleikur drengjanna í sumar.
B- liðið lék til úrslita við Víking og tapaði því miður 3-1. Þeir fengu því silfur í annað skiptið í sumar, og, rétt eins og C- liðið, voru að tapa sínum fyrsta leik í Íslandsmóti.
A- lið HK lék til úrslita við nágranna sína í Breiðabliki. Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli og var hörkuspennandi. HK komst tvisvar yfir en Blikar jöfnuðu jafn óðum. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 2-2 og var því gripið til framlengingar. HK náði yfirhöndinni snemma í framlengingunni og sleppti henni ekki aftur. Þegar blásið var til leiksloka voru því ósköp glaðir HK strákar sem hömpuðu Íslandsmeistaratitli og bikar! Drengirnir í A- liðinu hafa ekki tapað leik í sumar, hvorki í Íslandsmóti né öðrum mótum sumarsins og eru nú ríkjandi Íslandsmeistarar, Faxaflóameistarar, N1 móts meistarar og Olísmótsmeistarar. Þess má jafnframt geta að 6 af drengjunum 8 eru líka Íslandsmeistarar í handbolta.
Þjálfarar þessara efnilegu stráka allra saman eru þeir Magnús Orri Sæmundsson og Ásgrímur Albertsson sem eru báðir hafa verið sem leikmenn og þjálfarar hjá HK um árabil.
