„Þetta verður erfiður leikur því Njarðvíkingar hafa undanfarið sýnt einn mesta stöðugleikann í deildinni að undanförnu. Í síðustu sjö leikjunum hafa þeir unnið þrjá og gert fjögur jafntefli, og samt leikið við öll liðin í efri hluta deildarinnar nema okkur,“ sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari HK um mótherjana í samtali við HK-vefinn.
„Njarðvíkingar fengu fínan liðsauka frá Keflavík í júlí og svo er hinn reyndi Magnús Þormar kominn í markið hjá þeim, þannig að við þurfum heldur betur að vera á tánum. Við náðum upp frábærri baráttu í síðasta leik, gegn Gróttu, og verðum að ná upp sama hugarfari í þessum leik,“ sagði Gunnlaugur.
Guðmundur Steinarsson, hinn gamalreyndi sóknarmaður úr Keflavík, er í stóru hlutverki hjá Njarðvíkingum og þá hefur Theodór Guðni Halldórsson, sem kom til þeirra frá Keflavík í júlí, verið mjög drjúgur og skorað 7 mörk í síðustu 6 leikjum liðsins. Njarðvík hefur unnið Dalvík/Reyni, Hött og ÍR og gert jafntefli við KV, Aftureldingu, Sindra og Gróttu í leikjum sínum í síðari umferð mótsins. HK vann fyrri leik liðanna í sumar í Njarðvík, 3:1, en slæm byrjun Njarðvíkinga á tímabilinu kemur í veg fyrir að þeir eigi raunhæfa möguleika á að vinna sér sæti í 1. deildinni, þrátt fyrir velgengnina undanfarið.
Allir í hópi HK eru tilbúnir í slaginn. „Já, þetta er í fyrsta skipti í sumar sem ég hef úr öllum hópnum að velja,“ sagði Gunnlaugur en Ásgeir Marteinsson kemur inn á ný eftir að hafa verið í leikbanni gegn Gróttu og Aron Lloyd Green er með á ný eftir að hafa misst af síðustu fjórum leikjum.
HK er í 2. sæti fyrir 19. umferðina en fjórir af leikjum hennar fara fram í kvöld. Í efstu sætunum eru KV með 35 stig, HK með 34, Afturelding með 33 og Dalvík/Reynir með 29 stig.
Síðan koma Grótta með 28, ÍR með 27, Njarðvík 24, Sindri 23, Ægir 20, Reynir S. 20, Höttur 13 og Hamar með 10 stig.