Horfum til framtíðar og veljum að lifa í ljósi reynslunnar en ekki í skugga hennar

Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, oddviti BF/Viðreisnar í Kópavogi.

Að axla ábyrgð í stjórnmálum er ekki einfalt mál og að mörgu að hyggja. Með mikilli einföldun má segja það séu tvö meginhlutverk sem bæjarfulltrúar þurfa að huga að og rækta vel.
Í fyrsta lagi að að sýna ábyrgð í rekstri – ábyrga og góða meðferð fjármuna og annarra samfélagslegra gæða sem þér er trúað fyrir. Ennfremur að uppfylla lagalegar skyldur og þannig tryggja grunnþarfir og velferð íbúanna og móta öryggisnet fyrir þá sem sem á þurfa að halda.

Hin hliðin á þessum peningi sem er ekki síður mikilvæg er að móta framtíðarsýn og leggja línur um hvert skuli stefna í framtíðinni. Huga að því hvernig ramma eigum við að búa börnum okkar og næstu kynslóðum í okkar samfélagi. Það er skylda okkar að leggja fram trúverðuga hugmyndafræði um hvert skuli stefna og hugsa til lengri tíma.

Samstarf Sjálfstæðiflokks og Bjartrar framtíðar á kjörtímabilinu 2014 – 2018 gekk mjög vel. Kópavogur er í dag vel rekið sveitarfélag með mikinn tekjuafgang og skuldir hafa verið greiddar niður. Bærinn hefur dafnað, ásýndin er betri og töluverð fólksfjölgun orðið. Fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum hafa einnig valið sér stað í bæjarfélaginu og svo má áfram telja.

Björt framtíð lagði upp með það í meirihlutasamstarfinu á síðasta kjörtímabili að stefnumótun til framtíðar yrði eitt af lykilatriðunum í samstarfinu. Það skyldi ekki eingöngu vera texti á blaði og góðar fyrirætlanir heldur yrðu stigin skref sem væru áþreifanleg og sýnileg. Við lögðum mikla áherslu á að í Kópavogi yrðu unnið að stefnumótun þar sem nýsköpun yrði leiðarljós í mótun framtíðarsýnar fyrir Kópavog. Efla skyldi íbúalýðræði og stjórnsýslan gerð gegnsærri en áður.

Ég er ekki ein um þá skoðun að á síðasta kjörtímabili hafi Björt Framtíð haft frumkvæði að afar mörgum þáttum sem einmitt snúa að stefnumótun og framtíðarsýn sem leggja grunn að auknu íbúalýðræði, faglegri vinnubrögðum og gagnsæi í stjórnsýslu almennt. Það má nefna mörg dæmi:

  • Kópavogur varð fyrst allra sveitarfélaga til að opna bókhald sitt og hafa mörg sveitarfélög – og ríkisvaldið fetað sömu slóð.
  • „Okkar Kópavogur“ er verkefni sem byggir á þátttöku íbúanna í forgangsröðun verkefna og er óðum að festa sig í sessi.
  • Kópavogsbær hóf vinnu við heildarstefnumótun fyrir bæjarfélagið þar sem innleidd var vísitala félagslegra framfara (e. Social Progress Index). Stefnumótunin byggir annars vegar á innri vinnu starfseminnar og hinsvegar á ytri greiningu þar sem lagðir hafa verið fram árangursmælikvarðar sem mæla líðan bæjarbúa með hliðsjón af grunnþörfum, velferð og tækifæra þeirra til þátttöku í samfélaginu. Markmiðin taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um sjálfbæra þróun sem aðildarríki SÞ hafa skuldbundið sig til þess að innleiða. Afrakstur þessarar stefnumótunarvinnu hlaut mikla athygli á vormánuðum 2018 og hafa fulltrúar bæjarins m.a. kynnt verkefnið fyrir Norrænu ráðherranefndinni og Sameinuðu þjóðunum auk þess sem fræðimenn, bæði hér heima og erlendis, hafa látið í ljós mikla ánægju með þau framfaraskref sem tekin hafa verið hjá Kópavogsbæ og lýst yfir vilja til samstarfs.
  • Kópavogur mótaði einnig metnaðarfulla lýðheilsustefnu sem þegar hefur haft mikil áhrif. Þar skal hafa eftirlit með næringarríkum mat í leikskólum, skólum og mat fyrir eldri borgara og framundan er einnig að bjóða upp á hollan mat í sundlaugum og vonandi í íþróttamiðstöðum, að fjölga útivistarmöguleikum fyrir alla aldurshópa, að bjóða upp á opna fundi um andlega heilsu, almennar forvarnir og velferð íbúa á öllum aldri. Þau verkefni tengjast heildarstefnumótunarvinnu bæjarins náið en fjölmörg markmið sem tilheyra Heimsmarkmiðunum heyra einmitt undir lýðsheilsuverkefnin.
  • Kópavogur hóf vinnu við gerð samgöngustefnu og umbótaverkefni tengd umferðaröryggismálum. Við höfum haldið marga íbúafundi, málþing um hjólreiðar og haldið úti ábendingasíðu þar sem hægt er að koma athugasemdum á framfæri. Tilgangurinn er aukið samráð við íbúa um nærsamfélagið þeirra. Við þurfum að bæta lýsingu, tryggja öryggi barna, tryggja öryggi gangandi á blönduðum hjóla- og göngustígum, bæta þjónustu við þá sem nota hjólreiðar sem samgöngutæki og margt, margt fleira.
  • Kópavogur mótaði húsnæðisstefnu sem unnið hefur verið eftir á kjörtímabilinu. Farið var yfir stöðuna á húsnæðismarkaði, bæði á almennum markaði og í félagslega kerfinu. Lagðar voru til stefnumarkandi leiðir og útfærslur. Markmið tillagna okkar var að ýta undir byggingu minni íbúða og tryggja skilvirkari félagsleg úrræði fyrir þá sem þurfa að sækja slíka þjónustu til sveitarfélagsins. Á síðasta kjörtímabili var fjölgun nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu mest í Kópavogi og nýjum úrræðum fjölgað m.a fyrir fólk með fjölþættan vanda.

Ég gæti haldið áfram upptalningunni enda er ég sérstaklega stolt af þeim verkum sem eftir okkur liggja í sveitarfélaginu. Ég tel mig og okkur hafa unnið gott starf og er sérlega ánægð með stefnumótunarverkefni okkar þar sem hugsað er til framtíðar enda um að ræða nýsköpun í opinberri stjórnsýslu sem var sérstaklega verðlaunað sem slíkt á vormánuðum.

Mig langar til þess að þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir árangursríkt samstarf á síðasta kjörtímabili – árangur þess er mældur í þágu íbúa enda liggur okkar ábyrgð í því að þjónusta þá en ekki okkur sjálf.

Framboð BF Viðreisnar náði góðri kosningu í vor og fyrir það erum við þakklát. Kópavogur er á uppleið og við höfnum afturhvarfi til fortíðar. Við munum leggja okkar af mörkum til þess að verja þann árangur sem við náðum á síðasta kjörtímabili og halda áfram að vinna að þeim metnaðarfullu verkefnum sem við lögðum línurnar með. Nú bíður okkar vinna við gerð fjárhagsáætlunar þar sem leggja þarf línur við ábyrga og góða meðferð fjármuna í samræmi við stefnu okkar. Þá þurfum við að snúa stefnumótunarverkefnum í gang að nýju eftir sumarið því það er ekki eftir neinu að bíða og við í BF Viðreisn höfum þegar lagt fram tillögur þess efnis í bæjarráði að koma stýrihópum í gang. Við vinnum áfram að okkar verkefnum í ljósi reynslunnar en ekki skugga hennar því við vitum að þannig náum við betri og meiri árangri fyrir íbúa í Kópavogi.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn