Í tilefni fimm ára afmælis Hrafnistu í Kópavogi heimsóttu Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, heimilisfólk og starfsfólk Hrafnistu við Boðaþing í Kópavogi nýverið.
Opnun Hrafnistu í Kópavogi markaði á sínum tíma mikil tímamót í sögu öldrunarþjónustu á Íslandi. Annars vegar vegna þess að heimilið var hið fyrsta hér á landi sem sérhannað var með litlar, heimilislegar einingar að leiðarljósi. Hins vegar er það danska hugmyndafræðin sem þar er starfað eftir, „Lev og bo“, en Hrafnista tók hana fyrst upp hér á landi.
Segja má að nánast öll hjúkrunarheimili á Íslandi, sem byggð hafa verið eftir að heimilið tók til starfa, hafi tekið mið af Hrafnistu í Kópavogi. Dæmi um það eru Lögmannshlíð á Akureyri, Ísafold í Garðabæ, Hamrar í Mosfellsbæ og Nesvellir í Reykjanesbæ. Þess má raunar geta hér til gamans að fyrstu misserin eftir að heimilið opnaði var biðlisti fagfólks eftir því að koma í heimsókn til að skoða heimilið.
Hugmyndafræðin Lev og bo markaði tímamót á sínum tíma, en Hrafnista í Kópavogi hefur síðan þróað hana og aðlagað í samræmi við stefnu Hrafnistu. Í meginatriðum felur hugmyndafræðin það í sér að sameina bestu kosti sjálfstæðrar búsetu við það öryggi sem hjúkrunarheimili hafa almennt upp á að bjóða. Frekari þróun hugmyndinafræðinnar hefur leitt það af sér að nú má segja að komin sé fram ný hugmyndafræði, kennd við Hrafnistu í Kópavogi. Þessa nýju hugmyndafræði eru stjórnendur Hrafnistu þegar farnir að kynna stjórnendum annarra hjúkrunarheimila á Íslandi.