Eftir Pétur Hrafn Sigurðsson, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Tekjur Kópavogsbæjar eru að aukast sem skýrist að stærstum hluta af fjölgun íbúa og lækkun atvinnuleysis. Þessi góðu tíðindi koma fram í fjárhagsáætlun bæjarins sem afgreidd var í vikunni. Þrátt fyrir það felldi Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn allar tillögur minnihlutans sem snúa m.a. að hagsmunum barnafjölskyldna í bænum. Við vildum fjármagna okkar tillögur með því að fresta endurbótum á bæjarskrifstofunum sem eiga að kosta um 90 milljónir. Því hafnaði meirihlutinn.
Góðar tillögur felldar
Okkar sjónarmið voru og verða að vernda og bæta hag fjölskyldna í bænum og þar horfum við fyrst til barnafjölskyldna og lögðum því til að leiksskólagjöld verði óbreytt á næsta ári til hagsbóta fyrir barnafólk. Kostnaður vegna þess er um 20 milljónir. Við viljum stofna þróunarsjóð fyrir grunnskólakennara til endurmenntunar kennara í þeim tilgangi að bæta skólastarf í Kópavogi, kostnaður 4 milljónir. Við lögðum til að flýta framkvæmdum við leikskóla sérstaklega hvað varðar leikskólalóðir og hljóðvist í skólunum til hagsbóta fyrir bæði börn og leikskólakennara, kostnaður 40 milljónir. Lengingu dægradvalar um tvær vikur eftir að skóla lýkur hjá börnunum, gat meirihlutinn ekki stutt, kostnaður 3 milljónir. Við lögðum til að að 20 milljónir yrðu settar í að skapa tómstundaaðstöðu fyrir ungt fólk í Kórnum til dæmis fyrir bílskúrsbönd, leikhópa, myndlist ofl. Enn fremur að leggja eina milljón króna til stofnunar Öldungaráðs í Kópavogi en tillaga hefur komið fram um stofnun Öldungaráðs frá Samfylkingu, Framsóknarflokki og VGF.
Neyðarástand á húsnæðismarkaði
Fulltrúar Samfylkingar, VGF og Framsóknarflokks lögðu fram tillögu um að framlag til íbúðakaupa fyrir félagslegt húsnæði og leigufélaga á almennum markaði verði hækkað í 500 milljónir. Meginhluti framlagsins verði í formi eftirgjafar á lóðargjöldum, en framlagið myndi eignarhlut í félagi sem byggir slíkar íbúðir. Endanleg útfærsla ráðist af niðurstöðum húsnæðishóps Kópavogs og ákvörðunum sem teknar verða á vettvangi velferðarráðuneytisins. Þessu hafnaði Björt framíð og Sjálfstæðisflokkur.
Það er því enginn vilji til að bregðast við neyðarástandi á húsnæðismarkaði í fjárhagsáætlun þeirra. Eru það nöturleg skilaboð til allra þeirra sem bíða eftir úrlausnum í húsnæðismálum. Bæði Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík studdu tillögur til úrbóta í húsnæðismálum í Reykjavík og vekur það furðu að samflokksmenn þeirra í bæjarstjórn Kópavogs sjái enga möguleika á að setja fjármagn til lausnar á bráðum húsnæðisvanda.
Hægri stefna
Fjárhagsáætlun BF og Sjálfstæðisflokks sýnir pólitískar áherslur þeirra. Áherslan er á að lækka fasteignagjöld og útsvar sem kemur þeim tekjuhærri í bæjarfélaginu til góða, en hækka leikskólagjöld og önnur þjónustugjöld. Slík pólitík er hrein hægri pólitík og athyglisvert að Björt framtíð skuli undirgangast slíka pólitík. Það sýnir væntanlega fyrir hvaða hugmyndafræði þau standa og gefur upp boltann um hvernig framhaldið verður.