Hundaeigendur í Kópavogi hafa lengi beðið eftir hundaleikvelli í bænum eins og Una María Óskarsdóttir rakti hér í grein fyrr á árinu. Oft hafa komið upp leiðinleg mál um lausagöngu hunda, en samkvæmt reglum eiga hundar ekki að ganga lausir í þéttbýli.
Skipulagsnefnd Kópavogs lagði til við bæjarráð í fyrra að gert yrði hundagerði (hundaleikvöllur) í hluta gamla skeiðvallarins við Álalind. Svæðið yrði girt og kynnt hundaeigendum sem tilraunaverkefni.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, hefur nú lagt til við bæjarráð að umhverfissviði verði falið að merkja og afmarka svæði við Vatnsendahvarf sem hundasvæði. Áætlaður kostnaður við slíkt er um það bil 100 þúsund krónur. Bæjarráð vísaði málinu til umhverfis- og samgöngunefndar til úrvinnslu.