Skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki farið framhjá neinum. Árleg þörf er að jafnaði 1500-1600 nýjar íbúðir. Eftir efnahagshrunið 2008 datt nýsmíði íbúða nánast alveg niður og þar með varð til uppsöfnuð þörf á nýbyggingum. Nú er talið að nokkur ár geti liðið þar til jafnvægi náist að fullu á íbúðamarkaði.
Bæjarstjórn Kópavogs vinnur eftir aðalskipulagi Kópavogs og húsnæðisstefnu sem unnin var í upphafi þessa kjörtímabils í þverpólitískri sátt allra fulltrúa. Tillögurnar sem koma fram í stefnunni felast m.a. í því að stuðlað sé að byggingu minni íbúða. Í aðalskipulagi Kópavogs er áhersla lögð á að horft sé í ríkari mæli til þéttingar byggðar og að vægi vistvænni samgangna verði aukið í skipulagi. Áhersla er jafnframt lögð á blandaða byggð sem endurspeglast í fjölbreyttu framboði af húsnæði, þjónustu og útivist ásamt greiðum og öruggum samgöngukerfum. Á miðsvæðum er gert ráð fyrir mestum þéttleika byggðar en á jöðrunum verði hún strjálli. Lögð er áhersla á uppbyggingu á svæðum tengdum núverandi hverfum og á auðum lóðum þannig að byggingarland sé nýtt með hagkvæmari hætti. Í aðalskipulagi er m.a. gert ráð fyrir því að skipulag miðsvæðisins við Reykjanesbraut verði endurskoðað. Samhliða því að móta húsnæðisstefnu ákvað bæjarstjórn að breyta gjaldskrá þannig að hún ýtti undir byggingu minni íbúða. Afrakstur þeirra breytinga kom strax í ljós þar sem fjölmargir byggingaverktakar gerðu breytingar á byggingaráformum sínum, minnkuðu íbúðir og fjölguðu þeim og birtist það m.a. á þéttingarsvæðum. Í Kópavogi er búið að úthluta á kjörtímabilinu lóðum undir 86 einbýli, 10 parhús, 11 raðhús, 304 íbúðir í fjölbýli og 26 atvinnuhúsalóðum. Auk þess eru yfir 2000 íbúðir í uppbyggingu (á nokkrum byggingarstigum) á þéttingarsvæðum í einkaeigu.
Í framhaldi af áherslu bæjarstjórnar í húsnæðismálum var ákveðið að móta einnig heildstæða samgöngustefnu þar sem m.a. verður horft til lýðheilsuþátta, öryggis og loftgæða. Sú stefna er nú í vinnslu en búið er að halda fimm íbúafundi í tengslum við hana. Innihald hennar verður strætósamgöngur, göngu- og hjólaleiðir og bílaumferð. Við viljum skapa raunhæfa valkosti í samgöngum á móti einkabílnum, auka tíðni ferða almenningsvagna, stykja göngu- og hjólastíga, fjölga hjólastæðum við stofnanir bæjarins og fá fyrirtækin í lið með okkur. Fjölmargir kjósa bíllausan lífstíl, eins og fjölgun hjólreiðamanna ber með sér og sýnir að margir vilja búa í þéttri byggð þar sem stutt er í alla þjónustu. Kópavogsbær vill koma til móts við þann hóp enda eru mikil tækifæri hér á miðju höfuðborgarsvæðinu til þess að skapa úrvals aðstæður fyrir eftirsótt vistvæn íbúðarhverfi með góðum innviðum og mikilli þjónustu. Með skýrri stefnu í húsnæðismálum og samgöngumálum munu aðstæður skapast til enn fleiri valmöguleika á sviði samgangna og húsnæðismála í Kópavogi.