Byltingin er hafin! Umhverfisbyltingin. Við erum öll að vakna til vitundar um mikilvægi umhverfismála og eftirspurn eftir öllu mögulegu umhverfisvænu vex ár frá ári. Framtíðin er græn og felst í grænum iðnaði og stór aukinni áherslu á græna nýsköpun. Mig dreymir um að umhverfis- og sjálfbærnimál verði sett af einhverri alvöru á dagskrá í mínum bæ, ekki bara í orði heldur líka á borði. Ég brenn fyrir því að minnka sóun á öllum sviðum – þar liggja stóru tækifærin sem við verðum að nýta og besti tíminn til að gera það er NÚNA!
Hvað þarf að gera?
Í desember á síðasta ári áttu öll sveitarfélög að hafa sett sér loftslagsstefnu til að framfylgja næstu árin. Gott og vel. En það er ekki nóg að setja sér stefnu – það þarf að innleiða hana með þeim hætti að fólk skilji hvað felst í henni og til hvers er ætlast af íbúum. Annars er hún gagnslaus og bara enn ein skúffustefnan. Ég legg til að Kópavogur setji fram metnaðarfulla og kröftuga loftslagsstefnu sem setur tóninn fyrir önnur bæjarfélög. Ég sé fyrir mér að stefnan sé full af hugmyndum um fyrirbyggjandi aðgerðir en ekki viðbragði eftir að skaðinn er skeður.
Grænn Kópavogur
Það eru óteljandi hugmyndir sem gera bæinn betri og umhverfisvænni. Græn hverfi er ein þeirra þar sem notuð eru umhverfisvæn byggingarefni. Gróðursetjum markvisst á opnum svæðum og leggjum til plöntur í einkagörðum. Tökum þátt í orkuskiptunum með því að setja upp hleðslustöðvar á opnum svæðum eins og við kirkjur, leikskóla, skóla – þar sem starfsfólk hleður á daginn og íbúar í hverfinu eftir klukkan fimm. Fræðum og upplýsum fólk um grænan lífsstíl – hvetjum Kópavogsbúa til þátttöku í byltingunni. Stundum umhverfisvænni innkaup sem bæjarfélag og gerum kröfur til birgjanna okkar. Hvetjum og eflum hringrásarhagkerfið með því að endurvinna úrganginn enn frekar og búum til verðmæti úr honum. Löðum til okkar fyrirtæki sem eru á umhverfisvænni vegferð með fjárhagslegum hvötum. Endurhugsum þetta allt – notum minna og nýtum betur – þetta er ekkert flókið. Verum í fararbroddi í dag – því annars er ekkert til að hugsa um á morgun.