Aukin þjónusta, nýbyggingar, nýjar framkvæmdir, nýir samningar eru gulls ígildi til að flagga korteri í kosningar, eða það telja a.m.k. margir sem hafa verið lengi í stjórnmálum. Nú eru hins vegar nýir tímar og kjósendur kaupa ekki svona „kosningavíxla“ lengur. Þetta er of augljóst og gamaldags trix sem er gengið sér til húðar. Það hafa samt ábyggilega ekki allir í pólitíkinni kveikt á perunni og spennandi verður að sjá hversu marga milljón króna samninga eða loforð um greiðslur í framtíðinni verður skrifað undir nú maímánuði hér í Kópavogi. Verður það hús? Verður það nýframkvæmd? Verður það þjónustusamningur? Hvað skyldi koma upp úr hattinum? Leyndist eitthvað óúhlutað fé í fjárhagsáætlun bæjarins? Nei, svo er ekki. Allt á að vera uppá borðum. Staðreyndin er að það eru alltaf bæjarbúar sem borga brúsann og fjárhagsáætlanir á að virða og vinna samkvæmt þeim.
Ábyrgð í fjármálum
Við í Samfylkingunni í Kópavogi höfum unnið af ábyrgð á þessu kjörtímabili sem er að líða og munum að sjálfsögðu halda því áfram. Við tókum þátt í undirbúningi fjárhagsáætlana á síðastliðnum þrem árum og töldum það réttan vettvang til að koma með tillögur um meðferð fjármuna bæjarins. Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar hverju sinni í bæjarstjórn var það vissulega meirihlutinn sem fékk sínu fram að öllu jöfnu, en okkur tókst hins vegar að ná ásættanlegum árangri og halda meðal annars aftur af hækkunum á þjónustu við eldri borgara og ungt fólk í bænum. Mikilvægt er að hafa í huga á þessum árstíma á kosningaári að kosningaloforðin kosta og þær undirritanir sem detta inn stuttu fyrir kosningar kosta líka. Ólíklegt er að þeir kosningavíxlar séu innan fjárhagsáætlunar ársins hvað þá til framtíðar.
Kosningar kosta
Það er erfitt að svara því hvað kosningarnar komi til með að kosta sem slíkar. Líklega er réttara að spyrja hvaða útgjöldum muni meirihlutinn lofa fyrir kosningar til að reyna að halda sinni stöðu? Við sem höfum ekki haldið um stjórnartauamana í Kópavogi setjum vissulega fram okkar stefnu fyrir kosningarnar og hún kemur til með að kosta. Munurinn er sá að um þær tillögur geta kjósendur kosið 26. maí, en „kosningavíxlar“ eru undirritaðir fyrir kosningar og borgaðir síðar. Við sjáum hvað setur og hvetjum til nýrra vinnubragða með nýju fólki í bæjarstjórn Kópavogs.