Hvað kostar þetta?

Guðmundur Andri Thorsson, oddviti Samfylkingarinnar í SV kjördæmi.

Við hjá Samfylkingunni erum stundum spurð að því hvað þetta muni eiginlega kosta allt saman þegar við erum að segja frá hugmyndum okkar um að koma hér á félagslegum stöðugleika: hvernig við hyggjumst eiginlega fjármagna þetta allt saman. Í spurningunni liggur að við séum hálfpartinn að tala um einhvern munað: spítala þar sem sjúklingar hírast ekki á göngum og í gluggalausum skonsum; heilbrigðiskerfi þar sem fólk er ekki rukkað fyrir að vera með krabbamein; lífeyriskerfi sem refsar ekki gömlu fólki fyrir að afla sér tekna; húsnæðiskerfi sem gerir ungum fjölskyldum kleift að koma sér þaki yfir höfuðið; menntakerfi sem býr ungt fólk undir framtíð sem krefst sérhæfingar og símenntunar: Hvernig ætlið þið eiginlega að fjármagna þessi ósköp? erum við spurð eins og þetta sé allt tómt pjatt frekar en lágmarkskröfur um lágmarksvelferð hjá ríkri þjóð.

Og af því að við erum samviskusöm og skyldurækin reynum við að svara þessu eftir bestu getu með því að tala um tekjutengdan stóreignaskatt (húsnæði undanskilið); þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt; meiri arð úr bönkunum; meiri auðlindagjöld – engar ógurlegar tilfærslur eða eignaupptökur og engar skattahækkanir á venjulegt launafólk en markvissa viðleitni til að beina einhverju af öllu fjármagninu hér til að styrkja þetta sem við köllum félagslegan stöðugleika, og nýta féð af skynsemi og með heildarhag að leiðarljósi.

Í rauninni ættum við samt að svara þessu með annarri spurningu til hægri manna: Hvernig ætlið þið að fjármagna skattalækkanirnar? Hvað kosta þær? Hvar á að draga úr útgjöldum? Til menntamála? Heilbrigðismála? Samgöngumála? Því að skattalækkanir tákna minni fjárfestingu í innviðum samfélagsins.

Og hvað kostar það okkur öll?

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn